139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

endurskoðun stefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að allir séu sammála um að við viljum fylgja þeirri stefnu að hér komist sem fyrst í gang góður hagvöxtur, að fjárfesting aukist sem og atvinnan. Þau mál hafa mikið verið rædd undanfarnar vikur í samskiptum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og verða vonandi áfram þó að menn hafi sest yfir það að endurskoða það að nokkru leyti í ljósi niðurstöðu helgarinnar. Liður í því er að ríkið reyni fyrir sitt leyti, eins og það mögulega getur, að stuðla að opinberum framkvæmdum og fjárfestingum, en því er auðvitað þröngur stakkur sniðinn eins og við vitum.

Vandamálið er að sjálfsögðu ekki það að ríkið geti ákveðið að auka útgjöld sín, hvort heldur er til framkvæmda eða rekstrar, en séu ekki tekjur þar á móti er það ávísun á aukinn halla ríkissjóðs, aukna skuldasöfnun og þyngri byrðar inn í framtíðina. Þetta veit ég að framsóknarmenn sem eru vel að sér í bókhaldi og stærðfræði almennt skilja. Við gerum það sem við getum í þessum efnum, tökum mið af því hvort það verður hluti af kjarasamningum eða ekki, og síðan (Forseti hringir.) sætir bæði ríkisfjármála- og efnahagsmálaáætlunin endurskoðun. Þar er aðallega tvennt undir, annars vegar sá ótvíræði árangur sem þegar hefur náðst og hins vegar horfurnar nú og horfurnar fram undan sem við þurfum að taka mið af.