139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kostnaður við sölu Landsbanka Íslands o.fl.

546. mál
[16:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra annars vegar um kostnað við sölu Landsbanka Íslands og hins vegar um kostnað vegna samninganefndar Íslands við gerð nýjustu Icesave-samninganna sem greidd voru atkvæði um um helgina.

Þetta eru spurningar sem beinast í raun að sama málinu, þ.e. að upphafi þess og þeirri stöðu sem við erum í í dag með það mál. Annars vegar er um að ræða stjórnarstefnu sem var verið að knýja fram í upphafi við svokallaða sölu á Landsbanka Íslands á sínum tíma, en í stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar sem tók þá ákvörðun, ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 1995, kemur fram að eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar sé að leggja fram áætlun á sviði einkavæðingar sem unnið verði að á kjörtímabilinu. Áhersla verði lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Það eigi einnig við um fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Unnið verði að sölu á ríkisfyrirtækjum á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis.

Stuttu síðar hélt þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands og sagði m.a. af því tilefni, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar endurspeglað þá sannfæringu að frelsi í efnahagsmálum hljóti að vera grundvöllur efnahagslegrar velmegunar og forsenda þess að blómlegt og margbreytilegt mannlíf fái að dafna á Íslandi. Það er í anda þessarar stefnu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að ráðist verði í að einkavæða viðskiptabankana. Öflugt og vel rekið bankakerfi er undirstaða alls atvinnulífs á Íslandi og útrás íslensku bankanna á erlenda markaði er ánægjulegur vitnisburður um þann kraft sem leystur hefur verið úr læðingi við það að færa bankana úr ríkiseigu í hendur einkaframtaksins …“

Þeir forsætisráðherrar sem á eftir honum komu ítrekuðu þessa stefnu, þessa stjórnarstefnu, sem grunnurinn var lagður að í ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks árið 1995 og fylgt vel eftir allt til lokadags. Markmiðin þrjú voru sem sagt að einkavæða bankana, að draga úr skrifræði og eftirliti og í þriðja lagi að gera Ísland að miðstöð fjármálaumsvifa í heiminum, eins og villtustu draumar þáverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, snerust um.

Hinn endinn á málinu, sem snýr að spurningunni um kostnaðinn við að leysa þetta mál, þ.e. þá Icesave-samninga sem við fjölluðum um um helgina, er í raun af sama meiði en þó er sá munur á að í fyrra tilfellinu var verið að kosta stjórnarstefnu, koma í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, en á þeim enda sem við stöndum á í dag er verið að kosta afleiðingar þeirrar stefnu.