139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:09]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mér finnst ég standa frammi fyrir tveimur afarkostum og báðum slæmum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisstjórn sem mér finnst vinna meira ógagn en gagn og vera beinlínis hættuleg þjóð sinni, ríkisstjórn sem á hverjum degi fórnar hagsmunum heimilanna og fjölskyldnanna í landinu fyrir hagsmuni fjármálakerfisins.

Í ríkisstjórninni situr alls konar fólk. Sumir ráðherranna eru að vinna af heilindum, en forustan er ónýt og ég mundi vilja að forsvarsmenn hennar vikju og hleyptu nýju fólki að, fólki sem er tilbúið að vinna landinu gagn, tilbúið að bjóða spillingunni og bankakerfinu birginn og taka sér stöðu með heimilunum í landinu. Ég mundi vilja leggja fram vantraust á þrjá ráðherra í þessari ríkisstjórn, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra. Ég sé enga glóru í framtíðinni með þetta fólk í brúnni.

Það sem hefur þó valdið mér mestu hugarangri síðasta sólarhringinn er hvernig þessi tillaga er komin fram. Hún er sett fram sem höfuðlausn Bjarna Benediktssonar, þingmanns og formanns Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst vont að vera orðin þátttakandi í því ömurlega leikriti sem hér er sett á svið.

Formaður Sjálfstæðisflokksins missteig sig illilega. Hann ákvað að reyna að sýnast mikill maður, meiri maður en hann er, og samþykkja Icesave. Hann hafði þó ekki samráð við sitt fólk og fékk það óþvegið til baka. Nú þarf hann að redda sér og hefur fengið þá hugdettu í kollinn að best sé, ekki fyrir þjóðina, heldur fyrir sig prívat og persónulega, að drífa í kosningum þar sem hann mundi leiða flokkinn til sigurs því að ekki gæti fylgi flokksins minnkað eftir það afhroð sem hann fékk síðast. Þannig væru vandræði hans fyrir bí.

Vantrauststillagan á ríkisstjórnina er sett fram á forsendum Bjarna Benediktssonar og þeirra sérhagsmuna sem hann stendur fyrir. Hann vill ekki að ríkisstjórnin nái að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Hann vill ekki breyta stjórnarskránni. Þessi tvö mál eru mér hugleikin og ég hef lagt áherslu á að ekki verði boðað til kosninga fyrr en stjórnlagaráðið hefur skilað sínum tillögum og Alþingi afgreitt þær. Því get ég ekki stutt þessa vantrauststillögu eins og hún er sett fram af Sjálfstæðisflokknum.

En ég get ekki heldur varið falli ríkisstjórn sem ég vil losna við og tel skaðlega landi og þjóð. Við þingmenn Hreyfingarinnar höfum því farið fram á að greidd verði atkvæði um hvorn lið tillögunnar fyrir sig. Ég mun styðja vantrauststillögu á ríkisstjórnina á mínum eigin forsendum en mun ekki styðja tillögu um þingrof og nýjar kosningar. Mér finnst þær ekki tímabærar fyrr en eftir að stjórnlagaráð hefur lokið störfum, auk þess sem þær loka á möguleikann á utanþingsstjórn sem ég held að gæti fleytt okkur áfram á meðan stjórnlagaráðið lýkur sínum störfum treysti þessi ríkisstjórn sér ekki til að verja hagsmuni Íslands.

Látum ekki Sjálfstæðisflokkinn komast upp með sína frekjutilburði. Leyfum þjóðinni að greiða atkvæði um tillögur stjórnlagaráðsins og kjósum eftir að Alþingi hefur afgreitt nýja stjórnarskrá.