139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé gallalaus. Og hvaða ríkisstjórn væri það við þessar aðstæður? Mestu máli skiptir að hún vinnur hörðum höndum að því að endurreisa hrunið efnahagskerfi og vinda ofan af þeim órétti sem hér grasseraði. Ríkisstjórnin hefur þurft að grípa til margra og oft óvinsælla ákvarðana á leið sinni, en tekist hefur að koma í veg fyrir að jafnilla færi og flestir óttuðust. Nú eru meira að segja vísbendingar um að birta fari til. Hagkerfið er tekið að vaxa á ný. Allar spár sýna að hagvöxtur verði jákvæður í ár og næstu ár. Verðbólga er nú undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 4,5%. Skuldastaða þjóðarinnar hefur stórbatnað og þannig mætti lengi telja.

Hér á þessu þingi sitja þó nokkrir af þeim sem voru helstu talsmenn hins hömlulausa frjálsa hagkerfis, eilífðarvélarinnar sem átti að sjá um sig sjálf. Þar var áhættufíkn talinn kostur og græðgi jafnvel heppilegur eiginleiki til að spinna vélina hraðar áfram. Hún komst svo sannarlega á fulla ferð, ofhitnaði, bræddi úr sér og afleiðingarnar þekkjum við.

Nú þegar erfiðasti hjallinn er að baki og árangur er að nást skríða þeir fram og segja: Nú viljum við fá að prófa aftur. Ég held ekki. Við höfum fengið næga reynslu af þessum aðferðum í bili.

Í því uppbyggingarferli sem fram undan er tel ég mikilvægast að sanngirni og jöfnuður sé haft að leiðarljósi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur fullt umboð kjósenda til að sitja út kjörtímabilið og ég treysti henni prýðilega til að leiða það starf áfram.