139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt, með þínu leyfi, á því að vitna í Bjarna Thorarensen er hann mælti þær fleygu ljóðlínur:

En þú sem undan

ævistraumi

flýtur sofandi

að feigðarósi,

lastaðu ei laxinn,

sem leitar móti

straumi sterklega

og stiklar fossa!

Ég vitna í þessar ljóðlínur því að þær hefur íslensk þjóð alltaf skilið og samsamað sig við. Í dag ræðum við tillögu þingmannsins Bjarna Benediktssonar um vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þeirri tillögu hefur verið kastað út í straumiðu stjórnmálaumræðunnar af þeim sem sjálfir fljóta undan straumnum í ábyrgðarleysi þess sem hefur engin stjórnartök en vill engu að síður hindra laxinn í vegferð sinni upp ána í átt að markmiði.

Mér líður seint úr minni þegar ég eitt sinn kom á slysstað, þá ung kona, þar sem ölvaður ökumaður hafði valdið miklu tjóni á eignum og lífi fólks. Í fullkominni afneitun og reiði yfir afleiðingum eigin verka stóð hann hrópandi ókvæðisorðum að lögreglu og sjúkraflutningamönnum, sem komnir voru til aðstoðar, og vandaði þeim ekki kveðjurnar.

Það er ömurlegt að horfa nú upp á formann Sjálfstæðisflokksins haga sér með sama hætti, því að ef hægt er að líkja einhverjum íslenskum stjórnmálaflokki við ölvaðan ökumann sem olli þjóð sinni stórslysi með ofsaakstri á sú lýsing við Sjálfstæðisflokkinn, flokkinn sem innleiddi frjálshyggjuöfgarnar í íslenskt samfélag með tilheyrandi misskiptingu, einkavinavæðingu mikilvægra samfélagsstofnana og um síðir fjárglæfrum peningastofnana sem orsökuðu hér efnahagshrun.

Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ber ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þjóðinni, ekki ríkisstjórnin. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er björgunarlið á vettvangi, Sjálfstæðisflokkurinn er hinn ölvaði ökuþór. Illt er að skynja ekki ábyrgð sína en verra þó að leggja stein í götu aðstoðarinnar. Það sjá auðvitað allir að vantrauststillaga formanns Sjálfstæðisflokksins er örvæntingarfull tilraun til þess að breiða yfir hans eigin vandræði. Fyrir aðeins fáum dögum var hv. þm. Bjarni Benediktsson þeirrar skoðunar að þingi og þjóð bæri að samþykkja t.d. Icesave-samninginn og leysa þar með í sátt þetta erfiða úrlausnarefni sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók í arf frá ríkisstjórn Geirs Haardes í ársbyrjun 2009.

Sú afstaða þingmannsins var að mínu viti skynsamleg og málefnaleg. Hann lagði ískalt mat á stöðuna og tók síðan afstöðu með tilliti til þjóðarhags. Það kom hins vegar á daginn að þarna varð hann viðskila við sinn eigin flokk, þarna varð þingið í reynd viðskila við stóran hluta íslenskra kjósenda. En frekar en að horfast í augu við þá staðreynd bregður þingmaðurinn á það ráð að misnota hér í dag þingskapalögin um vantraust á ríkisstjórn til þess að hindra vantraust á sjálfan sig innan síns eigin flokks og það er hin nöturlega staða málsins.

Hvar er nú umhyggja formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir stöðugleika og þjóðarhag þegar hann sjálfur reynir að velta ríkisstjórn úr sessi og efna til upplausnar og óvinafagnaðar? „Lítilla sanda, lítilla sæva, lítil eru geð guma.“

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur unnið þrekvirki á þeim skamma tíma sem liðinn er frá bankahruni. Hún hefur ekki barið sér á brjóst en árangur Íslands í viðreisninni eftir hrun hefur vakið athygli langt út fyrir landsteina. Hagkerfið er að ná sér á ný, allar spár sýna að hagvöxtur sé hafinn þótt hægt fari. Verðbólga er 2,3%, komin undir verðbólgumarkmið, stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 4,5%. Gengi krónunnar mun styrkjast, atvinnuleysið er hætt að aukast og lækkar samkvæmt spám næstu mánuði. Mikill afgangur er af viðskiptum við útlönd, skuldastaða þjóðarbúsins hefur stórbatnað. Íslendingar voru meira að segja 12. farsælasta þjóð í heimi árið 2010 ef marka má lista Legatum-stofnunarinnar yfir þau lönd heims sem njóta mestar velmegunar. Mælingar sýna aukinn tekjujöfnuð í samfélaginu og meira að segja aukinn kaupmátt.

Þetta, herra forseti, eru aðeins nokkur af kennileitunum, nokkur kennileiti af mörgum um árangur af verkum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, um að árangurinn af verkum ríkisstjórnarinnar sé umfram væntingar. Á sama tíma hefur stjórnin staðið í stórræðum undir aðhrópum og niðurrifsstarfsemi. Hér hefur verið gripið til víðtækra og árangursríkra ráðstafana til aðstoðar skuldugum heimilum og fyrirtækjum, til aðstoðar atvinnulífinu og til þess að liðka fyrir fjármögnun og fjárfestingu. Einn liður í því var Icesave-samningurinn en um afdrif og tilurð þess máls er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni. Það mál var hennar arfur og það veit hv. þm. Bjarni Benediktsson mætavel.

Því miður, herra forseti, er þessi vantrauststillaga ekkert annað en táknmynd fyrir þá neikvæðni sem er allsráðandi í íslenskum stjórnmálum í dag og rekja má til stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins þar sem persónuofsóknir og niðurrif eru viðteknar aðferðir, þar sem afneitun og ábyrgðarleysi eru dagskipan í stjórnarandstöðu eins og fyrrverandi formaður þess flokks hefur upplýst opinberlega.

Herra forseti. Það er löngu tímabært að Alþingi Íslendinga snúi sér að uppbyggilegri verkefnum en þeim sem við ræðum hér í dag. Nú þegar sér fyrir endann á björgunarstarfinu og við horfum til nýrra tíma. Jafnaðar- og félagshyggjustjórn Jóhönnu Sigurðardóttur bíða mörg verkefni eftir óráðsíu og hrunadans Sjálfstæðisflokksins undanfarna áratugi. Hér þarf að jafna lífskjör, auka mannréttindi, innleiða umbætur á stjórnsýslunni og skapa eðlilega umgjörð um auðlindanýtingu okkar og það á ekki síst við um fiskveiðistjórnina. Ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur bíður það mikilvæga verkefni að uppræta áratuga óréttlæti núverandi kvótakerfis og innleiða þess í stað eðlileg starfsskilyrði fyrir sjávarútveginn og sjávarbyggðirnar í landinu sem hún hefur og heitið.

„Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið,“ (Forseti hringir.) sagði Hannes Hafstein á sínum tíma. Megi það verða einkunnarorð jafnaðar- og félagshyggjustjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem í dag væntanlega endurnýjar umboð sitt hér á hinu háa Alþingi.