139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, hæstv. fjármálaráðherra.

Mig langar í upphafi að ræða tilurð atkvæðagreiðslunnar og að hún skuli koma fram nú strax eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Ég verð að segja að mér finnst ekki mjög trúverðugt að hv. þm. Bjarni Benediktsson skuli flytja þessa tillögu sem formaður Sjálfstæðisflokksins eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Það hefði verið nær að forustumenn Hreyfingarinnar eða forustumenn Framsóknarflokksins hefðu flutt tillöguna en ekki forusta Sjálfstæðisflokksins.

Eins og öllum er ljóst sat ég hjá við fjárlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár og lýsti því jafnframt yfir að stuðningur minn við ríkisstjórnina væri skilyrtur við að snúa þyrfti af þeirri braut í Evrópumálum sem við værum á. Sú áætlun og það sem þar er í gangi og sú vegferð sem við erum á gengi ekki til lengri tíma litið og væri gróf ögrun og brot á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hét því fyrir síðustu kosningar að hún mundi ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt voru reifuð vinnubrögð, forgangsröðun í ríkisfjármálum o.fl.

Evrópusambandsferlið hefur snúist upp í algjört aðlögunarferli, hingað streyma styrkir til aðlögunar og mikill meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn þessu ferli. Jafnframt sjáum við, eins og hv. þm. Atli Gíslason minntist á fyrr í dag, varðandi skilgetið afkvæmi Evrópusambandsumsóknarinnar, Icesave-samningana, að núverandi ríkisstjórn sem ég hef stutt hefur lagt mikið á sig að koma þeim samningum í gegn og þeir eru beintengdir við Evrópusambandsumsóknina eins og hefur komið ítrekað fram. Sá mikli áróður í aðra átt hefur ekki reynst eiga við rök að styðjast.

Staðan er orðin svoleiðis núna, eins og ég sagði áðan, að meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn ESB-aðild. Nú eru þrír flokkar á Alþingi andsnúnir ESB-aðild eftir að Framsóknarflokkurinn skýrði stefnu sína um helgina og pólitískt bakland fyrir þessari umsókn er orðið lítið.

Þegar maður vegur og metur þessa baráttu — hv. þm. Atli Gíslason lýsti því yfir áðan að þetta væri fullveldisbarátta og þess vegna gæti hann ekki annað en sagt já við vantrauststillögu á ríkisstjórnina — þá snýst hún um að vega og meta og velta því fyrir sér hvort nú sé komið yfir einhver mörk, yfir einhverja línu sem dregin hefur verið. Stuðningur minn við ríkisstjórnina hefur verið skilyrtur. Er betra að vera áfram innan stjórnarliðsins og styðja ríkisstjórnina áfram eða er betra að stöðva þetta ferli eða réttara sagt að segja: Hingað og ekki lengra í þessu máli?

Ég held að við Íslendingar þurfum núna að forgangsraða með öðrum hætti. Við þurfum að forgangsraða og leggja til hliðar Evrópusambandsmálið. Við þurfum að leggja það til hliðar, þjóðin er klofin í herðar niður í málinu. Við sjáum að margir Evrópusambandssinnar koma nú fram í fjölmiðla og segja að það verði að stöðva ferlið og ríkisstjórn sem keyrir það áfram af svo miklum þunga ber mikla ábyrgð.

Niðurstaða mín er því sú að ekki sé skynsamlegt að halda áfram Evrópusambandsferlinu og ég styð ekki lengur ríkisstjórn sem heldur ferlinu áfram af jafnmiklum þunga og raun ber vitni.