139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:31]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það hefur komið ágætlega í ljós í umræðunni hér að hún var ekki einungis tímabær heldur nauðsynleg. Hún var nauðsynleg sakir þess að mikil óvissa hefur ríkt um það á hve traustum grunni stuðningur við ríkisstjórnina í þingsalnum hvílir.

Öll vitum við að ríkisstjórnin hefur misst fyrir borð undanfarnar vikur og mánuði nokkra af stuðningsmönnum sínum en þeir hafa ekki fyrr en í dag tekið af skarið með það að þeir styðja ríkisstjórnina ekki lengur. Sumir þeirra hafa tekið þannig til orða að þeir styðji stefnu síns eigin flokks en ekki ríkisstjórnina.

Það hefur vakið athygli mína hversu mjög stjórnarþingmenn hafa gert Sjálfstæðisflokkinn að umtalsefni hér í dag og reyndar á það einnig við um suma stjórnarandstöðuþingmenn. Það er eins og stjórnarþingmenn hafi mestar áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum, meiri áhyggjur en af hag fólksins í landinu og þjóðarhag í víðu samhengi. Hvað höfum við lagt til í dag? Höfum við lagt fram tillögu um að Alþingi samþykki að Sjálfstæðisflokkurinn taki við? Nei, við höfum ekki beðið um það. Við höfum sagt: Það þarf að láta reyna á traust ríkisstjórnarinnar í þingsalnum vegna þess að bersýnilega nýtur hún ekki sama trausts og þegar lagt var af stað í þennan leiðangur.

Við höfum líka sagt annað, sem er afar mikilvægt að menn átti sig á, og ég ætla að endurtaka það hér: Við höfum sagt að það þurfi að kjósa. Það er greinilegt að þeir stjórnarþingmenn sem hæst hafa látið með Sjálfstæðisflokkinn óttast hann. En það sem þeir óttast samt mest af öllu eru kjósendur. Þeir treysta sér ekki til að horfast í augu við kjósendur á þessum tíma. Við þekkjum það frá öðrum löndum að ríkisstjórnir nota oft tækifærið til að ganga til kosninga þegar vel stendur á. Miðað við ræður hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra væri einmitt tækifæri núna til að leggja á borðið fyrir kjósendur hinn glæsilega árangur sem þau hafa verið að kynna í þingsal í dag. Ef ekki núna, þá aldrei. Það hefur staðið upp úr þeim báðum bunan, langir listar afreka sem þau hafa kynnt til sögunnar í þingsal.

Hvers vegna þá þessi mikla hræðsla við kjósendur? Og hvers vegna er það eins og gefin staðreynd í máli allra stjórnarþingmanna að verði gengið til kosninga muni Sjálfstæðisflokkurinn taka við? Þetta á meira að segja við suma í stjórnarandstöðunni. Ekki er það vegna þess að ég hafi verið að lýsa hinum mikla styrk Sjálfstæðisflokksins. Hann birtist í orðum stjórnarliðanna, hann birtist í orðum hæstv. forsætisráðherra sem talaði nánast eins og það yrði gefið mál að ef gengið yrði til kosninga tæki Sjálfstæðisflokkurinn við völdum. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra það mikla traust sem hún sýnir okkur með þessu.

Bæði hæstv. fjármálaráðherra, sem gengur nú á dyr, og hæstv. forsætisráðherra hafa gert orð dansks hagfræðings að sínum í máli sínu í dag. Hvað sagði sá hagfræðingur? Þau virðast hafa misst af meginpunktinum. Hann sagði: Horfið fram veginn. En þetta fólk er fast í fortíðinni. Það talar ekki um annað en það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að horfast í augu við. En hefur þetta fólk horfst í augu við eigin verk? Hafa Vinstri grænir horfst í augu við það að þeir hafa svikið stefnu eigin flokks í Evrópusambandsmálinu? Hefur ríkisstjórnin horfst í augu við það að hún sveik loforðið um skjaldborg fyrir heimilin? Hefur hún horfst í augu við það (Forseti hringir.) að hún hefur ekki tryggt neina beina braut fyrir fyrirtækin. Þvert á móti er beina brautin orðin eins og völdundarhús, ekkert annað. Og ríkisstjórnin hefur heldur ekki (Forseti hringir.) horfst í augu við stjórnlagaþingskosningaklúðrið eða önnur mistök sem henni hafa orðið á á skammri vegferð. Allt leiðir þetta til sömu niðurstöðu. (Forseti hringir.) Við þurfum kosningar, við þurfum að kjósa um framtíðina og losna við þessa ríkisstjórn.