139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[11:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er ánægjulegt að nú vilja allir þessa Lilju kveðið hafa og við skulum þá bara kveða hana öll saman vegna þess að við erum að stíga það skref að hasla völl umræðu, ákvörðunum og ágreiningi um þessi mál sem í ein 40 ár hafa skipt þjóðinni í flokka. Við eigum með þessum umbúnaði að geta haft þetta ferli lýðræðislegra, opnara, gagnsærra, eðlilegra og vonandi jafnara gagnvart þeim ólíku hagsmunum sem um er að ræða.

Ég þakka iðnaðarnefnd fyrir gott starf í þessu og hrósa sérstaklega hv. formanni iðnaðarnefndar fyrir góða forustu og leiðsögn og bið nefndina (Forseti hringir.) um leið að afsaka að umhverfisnefnd skilaði ekki formlegu áliti en mælir með því verki sem iðnaðarnefnd (Forseti hringir.) hefur unnið í þessu efni.