139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[11:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir það að ástæða er til að óska iðnaðarnefnd og forustu hennar til hamingju með þá samstöðu sem þarna skapaðist af því að hér er kominn grunnur að skynsamlegri nýtingu og verndun á náttúrusvæðum. Með lögunum, verði þetta frumvarp að lögum, skapast forsendur fyrir röðun á virkjanakostum út frá sjónarmiðum nýtingar í sátt við náttúruna og þar með fólkið í landinu.

Tækifæri til að setja niður illvígar deilur um tiltekna virkjanakosti út frá sjónarmiðum jafnvægis á milli nýtingar og náttúruverndar skapast upp á nýtt með þessum lögum og þessari umgjörð þar sem hægt er að raða einstökum kostum út frá jafnvægi og skynsemi í sátt við náttúruverndarsjónarmið. Það er sérstakt fagnaðarefni að skapast hafi um þetta mál þverpólitísk sátt í iðnaðarnefnd og vekur vonir um að umræðan og ákvarðanir um virkjanir og nýtingu á náttúrusvæðum verði bæði yfirvegaðri (Forseti hringir.) og skynsamlegri á næstu missirum.