139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[11:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kom því að hér áðan í stuttri atkvæðaskýringu um heiti frumvarpsins hvers vegna við setjum þetta. En ég kom því hins vegar ekki að, virðulegi forseti, og það ætla ég að gera hér, að þakka umhverfisnefnd alveg sérstaklega fyrir góða samvinnu.

Eins og hér hefur komið fram voru haldnir tveir langir fundir sameiginlegir þar sem við tókum á móti gestum. En þar að auki höfum við formenn nefndarinnar, ég og hv. þm. Mörður Árnason, átt óteljandi fundi við það að koma þessu í þann farveg sem hér er. Þó svo að ekki hafi komið umsögn frá nefndinni vildi ég láta það koma fram að samvinnan var mikil. Glöggt er gests augað, virðulegi forseti, ef svo má segja um varaþingmann — sem vafalaust má ekki. En hv. þm. Ósk Vilhjálmsdóttir sagði hér áðan: Þrætustríði er e.t.v. lokið með þessu. Já, vonandi erum við með þessum grunnlögum komin á örlítið hærra plan. (Gripið fram í.)