139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[16:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað því hvort það sé líklegt að fella eigi starfsemina inn í einhverja bankastofnun. Það getur allt eins verið. Ég átta mig ekki á því hver framvindan verður með þetta. Af greinargerðinni er alveg ljóst að það á að setja einhvers konar fjármálastimpil á stjórnina meira en gert er í dag jafnvel þótt við vitum hvernig tókst til hjá fjármálaspekingum við að reka hér fjármálakerfi. Það er kannski ekki alveg til eftirbreytni.

Hér er athyglisverð setning í þessu samhengi. Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Fulltrúar í stjórn Byggðastofnunar þurfa því að hafa a.m.k. grunnþekkingu á málefnum atvinnulífs á landsbyggðinni.“

Áður er búið að taka fram að menn þurfi að búa yfir sömu þekkingu og krafa er gerð um í bankakerfinu. Ég leyfi mér að efast um að þeir sem hafa einhverja sérstaka þekkingu á fjármálakerfum eða eru toppar í bönkum landsins og fjármálafyrirtækjum hafi einhverja sérstaka þekkingu á atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Ég held einmitt að þeir sem hafi sérstaka þekkingu á atvinnustarfsemi á landsbyggðinni búi þar, séu þar og eigi því helst að koma þaðan til að stjórna þessari stofnun.

Það er mjög stutt síðan við sem erum áhugamenn um að þessi stofnun geti dafnað og verið í því hlutverki sem til er ætlast af henni með lögum glímdum við það að það átti að búta hana niður. Það átti að fara með hluta af starfseminni til Hagstofunnar og annan hlutann í, ég man ekki hvað hin stofnunin heitir, og inn í ráðuneytið. Ákveðinn hluti er kominn inn í ráðuneytið nú þegar, þ.e. gerð byggðaáætlunar sem við höfum verið að vandræðast með hér í þinginu hvað eigi að gera við í rauninni. Svo er unnin áætlun sem kölluð er 20/20 þvert ofan í byggðaáætlun. Stjórnleysið og stefnuleysið í þessum málum er algert. Það er stærsta vandamálið, ekki hversu margir eru í stjórn stofnunarinnar.