139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mín skoðun er hins vegar alveg kristaltær, það ber að breyta vinnubrögðunum og þess vegna vildi ég vita hvort hv. þingmaður væri tilbúinn til að gefa bara út þau fyrirmæli að við tækjum ekki við ríkisreikningi.

Það er mjög sérstakt að lokafjárlögin, sem eru í raun og veru bara þingskjal með ríkisreikningi, skuli ekki vera lögð fram samhliða eins og lög gera ráð fyrir. Ég held því að það væri skynsamlegt af nefndinni að setja slík fyrirmæli en ég virði sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar. Hv. þingmaður svaraði þessu nú mjög vel sjálf þegar hún fór yfir að einungis einu sinni í mjög langan tíma, síðan 1999, hafa lokafjárlög verið lögð fram fyrr á þinginu, það voru lokafjárlög ársins 2005.

Mig langar líka að beina einni spurningu til hv. þingmanns um svokallaðar sértekjur og markaðar tekjur. Nú hef ég lengi haft þá skoðun að allar stofnanir eigi að vera inni í fjárlögum eða fjáraukalögum, hvoru tveggja, með skýran ramma um fjárhagsútlát frá þinginu og þá einnig sértekjur og markaðar tekjur, sem eru oft á tíðum orðnar mjög hátt hlutfall af tekjum einstakra stofnana. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Tekur hún undir með mér að setja þurfi allar þessar tekjur inn í ríkissjóð og hafa þannig alveg kláran fjárlagaramma fyrir hverja og eina stofnun?

Síðast en ekki síst vil ég spyrja hv. þingmann, vegna þess að við erum að vinna núna með skýrslu ríkisreiknings sem fjárlaganefnd hefur ákveðið að gefa út, um eitt mál sem stendur þar dálítið út af borðinu að mínu viti, það er málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem við fengum ábendingu um frá Ríkisendurskoðun. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að við þurfum að vinna það mál lengra til að fá botn í það svo hægt sé að skila því til þingsins?