139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Ég held hins vegar að ekki sé hægt að hafa í lausu lofti hluti eins og gjaldtökuna eða hvernig menn ætla að framkvæma þessi verklegu skotpróf. Gefum okkur bara að hér eigi að halda 2.000 skotpróf, gæti verið meira, gæti verið 2.500 þess vegna, á hverju einasta ári — ég hef ekki hugmynd um það því að það hefur ekki komið fram. Hvar ætla menn að halda þau? Eiga þau að vera hér í Reykjavík? Eiga skotveiðimenn alls staðar að af landinu, m.a. þeir sem skjóta fyrir austan, að koma hingað? Er það umtalsverður kostnaður ofan á þann kostnað sem tengist þessari veiðimennsku? Ég held að menn þurfi að fara yfir það.

Sömuleiðis vil ég vekja athygli á því að það hefur ekki verið haldið námskeið í 10 ár, að held ég, jafnvel meira, ég man það ekki nákvæmlega. Ég spurði hæstv. ráðherra í haust hvenær haldið yrði námskeið. Hæstv. ráðherra upplýsti mig um að það yrði núna í vor. Það hefur ekki enn þá verið haldið. Það væri ágætt að vita nákvæmlega hvenær það verður haldið. Og eins og varðandi hinn þáttinn — ég geri auðvitað engar athugasemdir við að menn verði að þekkja staðhætti viðkomandi veiðisvæðis, en ef við gefum okkur að leiðsögumenn fari á milli svæða og þurfi alltaf að fara á nýtt námskeið út af nýju svæði og ef þessi námskeið eru haldin á 10 ára fresti þá gengur það nokkuð hægt. Sömuleiðis leyfi ég mér að hafa áhyggjur af framkvæmdum verklegra skotprófa því að ef menn eru ekki búnir að hugsa það alla leið býður það hættunni heim.