139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var ágæt ræða varfærins íhaldsmanns sem vill hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið og það sjónarmið ber auðvitað að virða. Þá er rétt að taka fram í upphafi að meiningin með Árósasamningnum og væntanlega með þeim frumvörpum sem hér eru flutt er ekki að opna kæruleið fyrir hvern og einn heldur miklu frekar að stuðla að því að losna við kærur og til að upplýsing um framkvæmdir og umhverfisáhrif sem af þeim leiðir eða öðrum þeim hlutum sem þessu máli koma við sé betri, kynning verka sé miklu fullkomnari, samræða takist um að það sem til stendur og þau verðmæti sem í húfi eru og að lokum náist samstaða um verkið þannig að kærum fækki frá því sem nú er, að það dragi úr átökum og ágreiningi sem við þekkjum vel á Íslandi sl. 40 ár og kannski nokkrum árum betur. Menn viðurkenna með þessu m.a. rétt almennings til kærunnar og þeir sem um þessi mál véla verða þess vegna að fara varlega. Þeir geta ekki viðhaft sömu ruðningsvinnubrögðin og því miður hafa verið allt of algeng hérlendis og reyndar annars staðar líka. Þessi aukni kæruréttur á þess vegna að breyta atferli og undirbúningi við framkvæmdir og skipulag sem þetta varðar.

Ég skil efasemdir hv. þingmanns og virði varfærni hans en vil spyrja um eftirfarandi: Hvaða rök eru það sem standa gegn opinni aðild önnur en þau að hún sé ekki tíðkuð núna? Hvaða aðrir kostir koma til greina en hin opna aðild sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu?