139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek því af skilningi að þingmaðurinn vilji skoða málin áður en hann kveður upp einhvern lokadóm um þá aðferð sem hér er til lögð og kemur þá með aðrar í staðinn. Það er samt hægt að biðja um á þessu stigi að hv. þingmaður upplýsi um hvort hann er almennt hlynntur meginreglum um „actio popularis“, um þann almannarétt sem fram kemur í Árósasamningnum, eða ekki. Það voru fleiri ástæður en álit réttarfarsnefndar á sínum tíma sem stóðu í vegi fyrir því að Árósasamningurinn yrði fullgiltur meðan flokkur hv. þingmanns var í stjórn frá 1998, þ.e. þegar tillagan var lögð fram og Árósasamningurinn samþykktur, og til 2007 þegar flokkur hv. þingmanns fór úr stjórninni, en hv. þingmaður sat á þingi og studdi ríkisstjórnina lungann úr þessum tíma, frá árinu 2003 ef ég man rétt. Ég bið hv. þingmann að svara því ósköp einfaldlega: Er hann meðmæltur Árósasamningnum eða er hann kannski ósáttur við þann samning yfir höfuð?