139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um losun gróðurhúsalofttegunda. Ég hef alltaf verið hrifinn af því þegar menn koma með viðskipti og sérstaklega þegar menn reyna að ná fram markmiðum í umhverfismálum með því að breyta þeim yfir í viðskipti.

Hér er um það að ræða að þau fyrirtæki sem menga með koldíoxíðlosun og öðrum gróðurhúsalofttegundum eiga að njóta þess ef þau spara eða minnka mengunina en þau eiga að borga fyrir það ef þau auka hana. Margar rannsóknir hafa verið gerðar og menn eru að reyna að breyta koldíoxíði yfir í eldsneyti með ýmsum ráðum, þar eru bakteríur notaðar og efnahvörf og annað slíkt. Slíkt gæti verið „mínuslosun“, þ.e. það gæti minnkað koldíoxíðmengunina á jörðinni og ætti því að vera hægt að selja þær losanir sem af því verða.

Varðandi aðra atvinnustarfsemi hef ég alltaf talið mjög óeðlilegt að t.d. flugið væri undanþegið en nú er búið að setja það inn, það er atvinnustarfsemi sem mengar mikið og á þá að borga fyrir það reglulega. Frumvarp sem þetta ætti því að vera mjög mikið gleðiefni fyrir þá sem trúa á hitnun jarðar vegna koldíoxíðmengunar. Sú kenning er ekki vísindalega sönnuð en margt bendir til þess að hún sé rétt.

Ég sagði áðan í andsvari að það gæti orðið mikil auðlind fyrir Ísland og ég tel reyndar að það gæti orðið hin mesta auðlind fyrir Ísland af því að við eigum mjög mikið af bæði nýttri og ónýttri hreinni orku. Við erum nú þegar með mikið af hreinni orku til notkunar, það lækkar t.d. hitunarkostnað húsa á Íslandi heilmikið að þau eru hituð með hreinni orku. Einnig eigum við heilmikið óvirkjað. Mér skilst að við séum búin að virkja um 30% af virkjanlegu afli, svo er spurning hversu langt menn vilja ganga á rétt náttúrunnar. Það fer væntanlega eftir efnahagsástandinu næstu áratugina. Eftir því sem það er bágara, þeim mun lengra ganga menn væntanlega á rétt náttúrunnar. En að það getur verið mjög varasamt að stöðva atvinnulífið eins og ég óttast að verið sé að gera núna. Ég hef lýst því að mér finnst að menn hafi gengið ansi langt í því að setja allt í kyrrstöðu með mörgum ráðstöfunum. Það þýðir að það verður fátækt á Íslandi eftir einhverja áratugi og þá munu menn þurfa að ganga meira á náttúruna en ég tel eðlilegt og æskilegt.

Hér er um það að ræða að myndaður verði markaður með losunarheimildir þannig að ef reisa á álver í Sádi-Arabíu og nota gas til framleiðslu á orku og ef reisa á álver á Íslandi með hreinni orku — það er kannski ekki gott að nefna ál sem dæmi vegna þess að ég tel að Íslendingar séu komnir fulllangt í því að framleiða ál, þá bara út frá áhættugrunni. Ál er orðinn stór hluti af þjóðarframleiðslunni þegar það er komið upp fyrir sjávarútveg í útflutningstekjum, reyndar ekki nettó því að það þarf að flytja heilmikið inn á móti, en önnur starfsemi eins og gagnaver og annað slíkt þarf orku. Ef menn ætla að reisa gagnaver í London þar sem landið er mjög dýrt, kælingin ekki eins góð og orkan framleidd með gasi, olíu eða kolum er miklu ódýrara að gera það á Íslandi og fyrir það þurfa menn að borga skatt eða gjald, koldíoxíðgjald. Það verður því mjög skemmtilegt að sjá hvernig markaður með svona heimildir þróast hér á landi. Ég hygg að þær auðlindir sem við erum uppteknust af í dag, þ.e. sjávarútvegurinn og orkan, muni verða hjóm eitt þegar við förum að selja koldíoxíðlosanir og margföldum verðið á orkunni. Losunin sem fylgir því að framleiða ál í Kína er að mig minnir tólf sinnum meiri en að framleiða ál á Íslandi vegna þess hvað mikið fer í koldíoxíðlosun.

Varðandi það sem sagt var áðan, að Vesturlönd þurfi að breyta sínu neyslumynstri, er ég ekki sammála því. Ég hygg að alveg sérstaklega Kína og Indland muni þurfa að breyta neyslumynstri sínu og það er í sjálfu sér jákvætt að þær þjóðir hætti að menga eins mikið og þær gera. Mér skilst að opnað sé nýtt álver í Kína aðra hverja viku, þvílík er „framþróunin“ í því landi.

Ég geri ekki annað en að fagna þessu. Ég vona að hv. umhverfisnefnd sem fær þetta mál til skoðunar sendi það til iðnaðarnefndar, mér skilst að það eigi helst heima þar, og jafnvel líka til efnahagsnefndar vegna þess að um er að ræða mikið efnahagslegt mál, og að þar verði búnar forsendur fyrir því að hægt verði að selja neikvæðar losunarheimildir þegar menn framleiða eldsneyti úr koldíoxíði, mengunarvaldinum, og eins að ræsa fram mýrar og rækta skóga og annað slíkt, að það myndist raunverulegur markaður með losunarheimildir þannig að það geti orðið útflutningsgrein hjá Íslendingum.