139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

grunnskólar.

747. mál
[16:28]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um grunnskóla. Hér eru mikilvæg ákvæði sem rétt er að fagna og vekja sérstaka athygli á, í fyrsta lagi endurkomu skólasafnanna inn í grunnskólaumhverfið. Þetta er afar mikilvægt tæki fyrir alla nemendur ekki síst í því umhverfi sem við erum smátt og smátt að innleiða þar sem áherslan er að færast meira og meira yfir á einstaklinginn í skólastarfinu. Ég held að það sé mjög til bóta ekki síst til að takast á við þau vandamál sem hafa fylgt okkur hér á landi allt of lengi og endurspeglast í gríðarlegu brottfalli nemenda í framhaldsskólum.

Það besta sem við gerum til að takast á við brottfallið er einmitt að líta á hverja persónu fyrir sig, skoða hæfileika, þroska, áhuga og getu hvers nemanda og nýta þá þau tæki sem við eigum inni í skólunum til að koma öllum á rétta braut og gefast aldrei upp fyrir þeim námserfiðleikum sem mæta okkur í hverju tilviki. Hægt er að koma öllum einstaklingum til mennta, alveg sama hvar þeir eru staddir á þroskaferli sínum og þó að þeir glími við ákveðna námserfiðleika. Það er skylda okkar sem samfélags að gera ævinlega allt sem við getum til að aðstoða þá sem þurfa á sérstakri hjálp að halda í þeim efnum. Valkosturinn að gefast upp fyrir því að einhverjir einstaklingar séu ekki hæfir til að læra er óásættanlegur fyrir okkar samfélag og hann skilar sér í alls kyns félagslegum vandamálum síðar meir á lífsleiðinni.

Ég fagna 6. gr. um skólabraginn. Það er afar mikilvægt að styrkja baráttuna gegn einelti, öðru ofbeldi og félagslegri einangrun í skólunum. Í frumvarpinu eru fleiri réttarbætur, þar á meðal 1. gr. sem tengist skólagöngu fósturbarna, og síðan er eðlilegt þó að það sé ekkert sérstakt gleðiefni endilega að sveitarfélögum sé færð heimild til að grípa til hagræðingar með því að draga úr vali í grunnskólunum en þar held ég reyndar að sé talsvert svigrúm til hagræðingar ef við berum okkur saman við það sem gerist og gengur meðal Evrópuþjóðanna og verður ekki talinn stórkostlegur skaði.

Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að það er talsverð umræða um þessa tillögu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einstakra sveitarfélaga að fá heimild til að fækka vikulegum kennslustundum. Ég vil segja í því samhengi þó að ég hafi fullan skilning á þröngri fjárhagsstöðu sveitarfélaga að það er mjög mikilvægt, sérstaklega á þessum tímum núna þegar við erum í kreppu og þegar atvinnutækifæri á vinnumarkaði eru óvenjufá, að við einmitt stöndum vörð um menntakerfið. Við eigum að gera það, við eigum að verja menntunina í landinu og við eigum að verja meiri fjármunum í menntakerfið einmitt á svona tímum til að viðspyrnan upp á við verði kröftugri. Því er það sérstakt fagnaðarefni að í drögum að þeim kjarasamningum sem vonandi eru að komast á lokastig í dag er sérstaklega vel tekið á menntamálum og vinnumarkaðsúrræðum og ég held að það gefi okkur von um að það sé að myndast betri samstaða og aukinn skilningur á mikilvægi menntunar í endurreisn þessa samfélags. Ég tel að við eigum að horfa á aðra þætti í rekstri skólanna en þessa lykilþjónustu sem snýr að menntun barnanna okkar og fagna því þeirri áherslu sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt í þeim efnum.

Það verður stundum að gera fleira en gott þykir. Þarna eru greinar sem miðast að því að veita fámennum skólum heimild til að fá undanþágu frá ákvæðum um skólaráð og nemendaverndarráð. Við þurfum að fara vel yfir það í menntamálanefnd hvort þetta er eina úrræðið í stöðunni fyrir þessa skóla. Ég tek undir það með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að það er mikilvægt að það séu skýrir farvegir fyrir aðkomu foreldra og nemenda sjálfra að stefnumótun inni í skólunum. Við þurfum að hafa skólaumhverfið með þeim hætti að foreldrar finni til sín og nemendur hafi eitthvað um það að segja hvernig málum er þar skipað. Við munum að sjálfsögðu fara yfir það hvort til eru aðrar leiðir til að koma til móts við þarfir fámennra skóla í þessu efni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps og við munum fara vel yfir það í menntamálanefnd, vega og meta þau grundvallarsjónarmið sem búa að baki þegar þetta kannski mikilvægasta svið almannaþjónustunnar er undir.