139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hann var skrýtinn, svipurinn á hæstv. ráðherra þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal færði honum fréttirnar af tapinu á göngunum.

Ég kem hér upp til að lýsa því yfir að það er ánægjulegt að nú skuli einhverjar framkvæmdir vera að fara af stað í þessu ágæta landi okkar, það hefur verið of langt framkvæmdastopp. Ég velti hins vegar fyrir mér hvernig við forgangsröðum framkvæmdum, hvernig við setjum aurana sem eru til skiptanna eða ekki til skiptanna í vegaframkvæmdir. Við erum með þessu að bæta samgöngur sem eru ágætar, gera þær miklu betri, en ákveðinn hluti landsmanna býr við nánast engar samgöngur. Þar vísa ég t.d. til Vestfirðinga, suðurfjarða Vestfjarða, þar sem virðist vera mjög einbeittur vilji til að gera vegabætur eins flóknar og mögulegt er. Ég minni á að fyrir þinginu er frumvarp sem liðkar til fyrir þeim framkvæmdum og nú skora ég á hina framkvæmdaglöðu ríkisstjórn, (Forseti hringir.) fyrst hún er orðin framkvæmdaglöð, að ýta á sitt fólk að liðka til fyrir því.