139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Að störfum er stjórnlagaráð sem vinnur ötullega að því að semja stjórnarskrá fyrir Ísland og það er vel. Ég vil hins vegar benda á að stjórnarskrá Sovétríkjanna var ein sú fegursta í heimi og samt var Gulag þar vegna þess að framkvæmdin var ekki nógu góð.

Nú hefur komið fram, og síðast í gær, að ekki er farið að stjórnarskrá, að mínu mati, varðandi ríkisábyrgðir og þar hafa menn ekki gætt sín nógu vel. Það er heldur ekki farið nógu nákvæmlega að ákvæðum stjórnarskrár um félagafrelsi. Við höfum t.d. fengið á okkur dóm frá Mannréttindadómstólnum út af iðnaðarmálagjaldinu og mörg önnur gjöld eru eftir, búnaðargjaldið o.s.frv. og ekki síst 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaganna en flestir þingmenn greiddu atkvæði gegn því að hún yrði felld niður. En það er greinilega mannréttindabrot vegna þess að opinberir starfsmenn geta ekki stofnað stéttarfélög. Fólk sem vinnur í leikskóla og með lág laun getur ekki stofnað stéttarfélag og samið við launagreiðendur sína. Það verður að fara í gegnum opinber stéttarfélög. Svo erum við líka með eignarréttarákvæði sem margir telja að séu brotin.

Ég skora á hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn að fara að stjórna eftir og í samræmi við stjórnarskrá Íslands. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!)