139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæða til að endurtaka part úr svari hv. þingmanns. Hv. þingmaður sagði hér áðan að hann teldi að réttaröryggi hefði verið teflt í tvísýnu að óbreyttu, (AtlG: Kynni að hafa.) kynni að hafa verið teflt í tvísýnu að óbreyttu. Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing vegna þess að af hálfu Alþingis var búið að taka ákvörðun um að fara í málshöfðun gegn fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra. Það var búið að leggja fram sérstakt frumvarp sem ríkisstjórnin stóð að og hæstv. fyrrverandi mannréttindaráðherra flutti sem hafði þá þetta til að bera að það tefldi mögulega réttarörygginu í tvísýnu. Þess vegna er núna að mati hv. þm. Atla Gíslasonar verið að flytja það mál sem við fjöllum hér um. Þetta eru gríðarleg tíðindi og mikill áfellisdómur yfir allt málið frá upphafi til enda og gerir það auðvitað enn að verkum að maður undrast það að Alþingi hafi illu heilli og því til skammar tekið þá ólukkuákvörðun 28. september að ákæra fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra.