139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég vil í upphafi segja að minni hv. þingmanns er mun betra en hæstv. forsætisráðherra því breytingin sem hér var nefnd var gerð 2007 og þingmenn Framsóknarflokksins greiddu atkvæði á móti. Hæstv. núverandi forsætisráðherra var hins vegar fjarverandi þannig að það kann að skýra þetta.

Hins vegar er athyglisvert að þingmenn Vinstri grænna greiddu líka atkvæði á móti þeim breytingum sem þá voru samþykktar þannig að nú þurfum við að kalla eftir skýringum á því hvort hugur þingmanna Vinstri grænna til breytinga á Stjórnarráðinu hafi breyst eitthvað þar sem þeir voru allir að mér sýnist á móti því máli síðast.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann meti það svo að með breytingunum sem nú eru lagðar til sé verið að auka foringjaræði. Ég skil það svo að árið 2007 hafi menn ekki viljað ganga svo langt að undirstrika og auka það þrátt fyrir það sem gerðist síðan og menn hafa gagnrýnt.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann út í skýringar í 2. gr. á bls. 39. Þar er sagt að ráðuneytin skuli ekki vera fleiri en tíu. Er það í raun ekki ákvörðun hverrar ríkisstjórnar eða hvers Alþingis að leggja fram nýtt frumvarp um að ráðuneytin geti þess vegna verið fimm eða tuttugu eða hversu mörg sem er? Ef ég skil þetta mál rétt er í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir að næsta ríkisstjórn breyti einfaldlega þessu ákvæði. Þá yrði væntanlega einnig að breyta ákvæðinu varðandi vald forsætisráðherra sem er alveg gríðarlega mikið (Forseti hringir.) samkvæmt frumvarpinu.