139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að þingflokkur VG var ekki tilbúinn til að styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er kannski ágætt að það komi fram hér að nokkrir þingmenn innan raða VG studdu það á sínum tíma að fram færi tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla og sú tillaga féll mjög naumlega í þinginu. Þegar hugmyndir um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu komu fram höfðu mjög margir, sérstaklega innan Samfylkingarinnar, mjög miklar áhyggjur af því að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál vegna hræðslu við það að þjóðin mundi hafna því að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að margir þessara þingmanna og fleiri utan þingflokks og í samfélaginu almennt séu byrjaðir að átta sig á því að kannski hefði verið heppilegra að kanna með þjóðaratkvæðagreiðslu raunverulegan þjóðarvilja fyrir því að fara af stað í þennan leiðangur, sérstaklega í ljósi þess hversu naumlega tillagan féll í þinginu.

Það var kannski ekki hvað síst fyrir það að margir þingmenn Vinstri grænna, ég fann það á eigin skinni, urðu fyrir miklum hótunum frá þingmönnum Samfylkingarinnar í þessu máli, hótunum um að ríkisstjórnin spryngi og annað því um líkt ef samþykkt yrði tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er mjög sérstakt.

Varðandi það hvers vegna verið sé að keyra málið inn í slíkum ágreiningi sem raun ber vitni, ja, ég reyndi að reifa í ræðu minni af hverju lögð væri svona gríðarleg áhersla á að keyra þetta mál í gegn. Af hverju er það? Ekki er það til að bregðast við rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er í rauninni fátt sem kemur upp í hugann nema að baki þessu liggi einhverjar hugmyndir um að leggja niður ákveðin ráðuneyti eða annað því um líkt.

Ég taldi heppilegast á sínum tíma þegar — (Forseti hringir.) nei, ég klára þetta í næsta andsvari.