139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal vera alveg heiðarlegur við hv. þingmann. Ég sé ekki allar þessar stóru hættur í þessu, ég sé ekki að þetta sé boðorð um eitthvert foringjaræði. Ég sé það ekki alveg í fyrstu hendingu við fyrsta lestur á frumvarpinu. Það getur vel verið að sumir hv. þingmenn hafi meiri áhyggjur af því en ég en ég kom hins vegar mjög vel inn á það í ræðu minni að mér fyndist að það þyrfti líka að styrkja þingið gagnvart einstaka ráðherrum. Ég er ekki eins viðkvæmur og margir aðrir fyrir því hvað ráðuneytin heita og þar fram eftir götunum þó að ég sé hins vegar staðfastur á móti því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði sameinað iðnaðarráðuneytinu og búið til eitthvert atvinnuvegaráðuneyti. Það liggur fyrir að ég er algerlega á móti því en ég er hins vegar ekki svo viðkvæmur fyrir þessu.

Ég benti á að þetta er ekki eðlilegt eins og þetta er gert í dag, hæstv. ráðherrar geta til að mynda tekið mjög stórar ákvarðanir sem hafa mjög miklar afleiðingar fyrir kannski tugi manna, að það skuli ekki einu sinni þurfa að kynna það í ríkisstjórn. Það er reyndar lagt til í frumvarpinu núna að það skuli gert og lagt á það mat með þær ákvarðanir sem hafa mikil áhrif en mér fyndist að það ætti að vera með þeim hætti að það ætti að leggja það fyrir þingið. Það er eitt af því sem ég verð æ staðfastari í að það þurfi að styrkja þingið, eins og var reyndar niðurstaða rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannanefndarinnar, gagnvart framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma, því við vitum að hæstv. ráðherrar koma og fara. En ég tel mjög mikilvægt að það sé ekki gert þannig að hv. Alþingi sjái það í einhverjum tilkynningum og fjölmiðlum hvað einstaka hæstv. ráðherrar eru að gera og jafnvel að ekki þurfi að kynna það ríkisstjórn þó að það hafi mjög alvarlegar afleiðingar. Það er reyndar gengið aðeins í þá átt í þessu frumvarpi að koma böndum á það en ekki nægilega að mínu mati, það þarf að kynna það fyrir þinginu.