139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ýmislegt sem hér hefur komið fram, m.a. í ábendingum frá þeim þingmanni sem nú situr í forsetastól, hefur verið jákvætt og til bóta. Það er bara hið besta mál ef málið batnar í meðförum þingsins. Ekki geri ég athugasemdir við það. Í samráðsferli um atvinnuvegaráðuneytið, sem hefur farið fram við 20 eða 30 aðila í greiningu um kosti þess að sameina þessi ráðuneyti, hefur komið fram að ávinningur að nýrri ráðuneytaskipan er metinn jákvæður í tengslum við 16 af 18 þáttum sem greindir voru. Það er ýmislegt jákvætt í því að fara í slíka sameiningu.

Annars er þessi umræða furðuleg á margan hátt. Við erum að fara hér inn í svipaða stjórnskipan og er í sjö Evrópulöndum sem við gjarnan berum okkur saman við. Ég hef ekki heyrt menn tala um að það sé verið að taka vald af löggjafarþingi þeirra þinga og (Forseti hringir.) setja til framkvæmdarvaldsins, þvert á móti. Ég held að menn ættu að (Forseti hringir.) skoða þetta mál í víðara samhengi en þeir (Forseti hringir.) eru búnir að gera, en ekki beina því bara að því að hér sé verið að (Forseti hringir.) koma á atvinnuvegaráðuneyti. Það er ekki tilgangur þessa frumvarps, (Forseti hringir.) ég hef margfarið yfir það.