139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands, betur þekkt sem frumvarp um að leggja niður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason.

Hvers vegna kemur frumvarp með þennan tilgang til þingsins núna? Það vekur nokkra furðu í ljósi þess að nánast virðist liggja fyrir að ekki sé meiri hluti fyrir málinu í þinginu. Meira að segja annar ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, gerir mjög alvarlega fyrirvara við frumvarpið sem enn er óljóst hversu langt muni ganga þegar á hólminn er komið og hvort sá flokkur muni yfir höfuð sætta sig við málið, a.m.k. er ólíklegt að allir geri það. Reyndar er þegar orðið ljóst að ekki munu allir innan Vinstri grænna gera það vegna þess að málið var afgreitt úr ríkisstjórn með hætti sem er vægast sagt óvenjulegur, nánast einsdæmi. Einn ráðherra, ráðherrann sem málið varðar kannski sérstaklega eins og ég nefndi í upphafi, Jón Bjarnason hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu í ríkisstjórn. Annar ráðherra, hæstv. innanríkisráðherra, gerði við það verulega fyrirvara. (Gripið fram í.)

Frumvarpið snýst enda um að efla hluta framkvæmdarvaldsins á kostnað annars hluta framkvæmdarvaldsins og þó löggjafans sérstaklega. Það gengur því í raun gegn öllu sem hvað mest áhersla hefur verið lögð á í umræðu um bætur á stjórnkerfinu á undanförnum tveimur árum. Raunar er það svo að fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde er nú fyrir landsdómi, m.a. sakaður um hluti sem beinlínis er ætlast til af forsætisráðherra samkvæmt þessu nýja frumvarpi. Með því er forsætisráðherra falið vald til að færa verkefni á milli annarra ráðherra og ráðuneyta eftir því sem forsætisráðherra hverju sinni telur henta. Þetta er mikið vald, svo mikið að í raun má segja að forsætisráðherra sé orðinn einn yfirráðherra og allir hinir ráðherrarnir séu nokkurs konar aðstoðarráðherrar með það eina hlutverk að framkvæma verkefni sem forsætisráðherra felur viðkomandi á hverjum tíma.

Þannig er í raun vegið að því mikla grundvallaratriði sem sjálfstæði ráðherra hefur verið. Ráðherrar hafa haft töluvert vald yfir málaflokkum sínum en tilgangurinn með því er ekki hvað síst sá að dreifa valdinu, að það þjappist ekki um of saman á einn stað svo að þegar mistök verða gangi það ekki yfir alla línuna. Að sjálfsögðu er mikilvægt að hafa í huga að fylgjast þarf með því sem hver ráðherra gerir á hverjum tíma svoleiðis að hægt sé að grípa inn í ef einhver ráðherra gerir mistök. Hins vegar er mjög erfitt við slíkt að eiga ef allt þetta vald er komið til forsætisráðherrans.

Það gerir líka að verkum að mjög óljóst er hvar ábyrgðin liggur þegar á hólminn er komið, t.d. ef gerð eru mikil mistök eða ef fylgt er stefnu sem reynist síðan á einhvern hátt mjög röng eða leiðir til óheppilegrar niðurstöðu. Þá er erfitt að átta sig á hvar ábyrgðin liggur, nema að sjálfsögðu hjá forsætisráðherranum sem eðli málsins samkvæmt hefði þá nánast allt vald og þar af leiðandi alla ábyrgð. Þetta væri ákaflega óheppileg þróun og gengur gegn því sem menn hafa reynt að ná fram, að auka valddreifingu og efla sérstaklega vald löggjafarvaldsins enda á valdið að liggja þar samkvæmt stjórnarskránni.

Þetta veldur því líka að forsætisráðherra hefur að mjög miklu leyti vald yfir samstarfsflokknum eða samstarfsflokkunum. Jafnvel þó að gengið sé frá ákveðinni skiptingu þegar ríkisstjórn er mynduð getur forsætisráðherrann í framhaldinu skorist í leikinn og fært verkefni frá ráðherrum samstarfsflokksins til ráðherra eigin flokks. Eða það sem kannski skiptir enn meira máli, fært verkefni og völd frá ráðherrum sem eru á einhvern hátt ekki á bandi forsætisráðherrans og fylgja ekki þeirri stefnu sem forsætisráðherra eða flokkur hans aðhyllist á hverjum tíma, til annarra. Bara með því að þetta vald sé til staðar er forsætisráðherra í raun í aðstöðu til að geta haft aðra ráðherra í bandi, ef svo má segja. Þeir vita að ef þeir ganga á einhvern hátt gegn vilja forsætisráðherrans hefur hann vald til að taka af þeim ábyrgðina sem þeir hafa eða verkefni þeirra. Með öðrum orðum, þessi bók snýst fyrst og fremst um að þjappa saman valdi hjá forsætisráðherranum og tilgangurinn er í fyrstu væntanlega sá að taka allt vald af núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Auðvitað er álitamál hvort svona breyting á stjórnkerfinu sé yfir höfuð æskileg. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að hún sé mjög óheppileg, eins og ég hef lýst. Hún er sérstaklega óheppileg þegar við erum með ríkisstjórn eins og þá sem nú situr. Hún heldur því reyndar sýknt og heilagt fram, sérstaklega þegar hún lendir í vandræðum, að hún leggi áherslu á samráð. Við höfum orðið mjög vör við að þegar ríkisstjórnin er í sem mestum vanda er talað sem mest um samráð og að allir flokkar og þingmenn eigi að vinna saman að tilteknum málum. Þá er auðvitað átt við að ætlast sé til þess að allir þingmenn fylgi stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. stefnu hæstv. núverandi forsætisráðherra. Það kemur enda á daginn að þegar menn leggja einhverjar aðrar tillögur í samráðið er lítið gert með þær, raunar ekki neitt.

Við sáum hvaða alvara lá að baki öllum yfirlýsingum um samráð fyrir ekki svo löngu síðan þegar rædd var breytingartillaga hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um búvörulögin. Hv. þingmaður kom með breytingartillögur sem um var nokkurn veginn full samstaða en í lokin, þegar verið var að afgreiða málið, lagði einn af þingmönnum Samfylkingarinnar, hv. þm. Helgi Hjörvar, fram breytingartillögu sem hefði falið það í sér, hefði hún verið samþykkt, að kerfinu sem stendur undir einni af grunnatvinnugreinum Íslendinga, landbúnaði, hefði verið rústað. Það hefði gerst með lítilli breytingartillögu sem var sett inn á síðustu stundu algjörlega án samráðs, án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu. Nei, það átti að rústa heilli atvinnugrein, afkomu hundruða og jafnvel þúsunda manna og eignum með einni lítilli breytingartillögu sem var laumað inn í lokin, algjörlega án umræðu.

Hvað gerðu þingmenn Samfylkingarinnar? Þeir greiddu atkvæði með þessu allir sem einn. Eigum við að treysta þessu sama fólki fyrir því valdi sem á að fela framkvæmdarvaldinu undir forustu hæstv. forsætisráðherra sem studdi þessa tillögu, þessa tilraun til að rústa heilli atvinnugrein með einni lítilli breytingartillögu algjörlega án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu?

Reyndar er ekkert nýtt að hæstv. forsætisráðherra sýni grunnatvinnuvegum landsmanna litla virðingu. Afstaða krata til landbúnaðar er löngu þekkt, frá upphafi 20. aldar. En hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur leyft sér að tala um sjávarútveginn að undanförnu er hins vegar verulegt áhyggjuefni. Sjávarútvegurinn átti að vera sú grein sem drægi vagninn út úr kreppunni. Það er óumdeilt að gera má breytingar á sjávarútvegskerfinu og hvernig þeim málum er stýrt en að forsætisráðherra hæstv. skuli ekki geta talað um þessa atvinnugrein öðruvísi en með níði, með því að uppnefna menn og kalla þá öllum illum nöfnum, fólk sem í langflestum tilvikum vinnur heiðarlega að einni mikilvægustu, hugsanlega mikilvægustu atvinnugrein landsins og grunnstoð byggðarlaga í kringum landið, og ætli síðan að koma með frumvarp sem felur í sér að sama hæstv. ráðherra sé falið algjört vald yfir öðrum ráðuneytum og væntanlega til að byrja með sérstaklega ráðuneyti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er verulegt áhyggjuefni.

Ef frumvarpið yrði samþykkt væri það til þess fallið að auka enn á óstöðugleikann sem einkennir íslensk stjórnmál nú um stundir. Óstöðugleikinn sem landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn hafa búið við að undanförnu hefur kostað þjóðina milljarða á milljarða ofan. Raunar hafa allar atvinnugreinar landsins verið í varanlegri óvissu meðan þessi ríkisstjórn hefur setið að völdum. En ef menn ætla svo að auka enn á óvissuna og óstöðugleikann í stjórnmálunum hefur það áhrif á allt annað og eykur enn á óvissuna og óstöðugleikann. Þegar menn geta ekki lengur treyst því að tiltekinn ráðherra fari með sinn málaflokk er á ekkert að treysta í samskiptum við þann ráðherra eða ráðuneyti hans. Hvað eiga þeir sem starfa í greinum sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti t.d. að gera ef þeir búa stöðugt við það að ráðherrann sem þeir þurfa að eiga samskipti við geti daginn eftir verið búinn að missa málaflokkinn eða hluta málaflokksins frá sér og einhver annar með allt aðra stefnu er tekinn við? Frumvarpið er til þess fallið að skapa og viðhalda varanlegri óvissu og algjörum óstöðugleika í stjórnmálunum á sama tíma og valdi er þjappað saman hjá forsætisráðherra.

Athygli vekur líka að með frumvarpinu er ráðist í mjög breytta túlkun á stjórnarskránni frá því sem verið hefur um áratugaskeið sem hlýtur að vekja töluverða furðu þegar ljóst er að ráðist verður í umfangsmiklar breytingar á henni. Verið er að fara yfir stjórnarskrána á ýmsum stöðum og á ýmsan hátt en á sama tíma er lagt fram nýtt frumvarp um Stjórnarráð Íslands, heil bók, þar sem vikið er frá núverandi túlkun á stjórnarskránni og ný dregin upp rétt áður en menn ætla að ráðast í að endurskoða hana.

Spurningin sem eftir stendur er því sú sem ég nefndi í upphafi: Hvers vegna nú? Hvers vegna kemur frumvarpið fram aftur núna eftir að ljóst mátti verða að engin samstaða ríkti um það? Auðvitað er sérstaklega óheppilegt að ekki skuli vera samstaða um frumvarp um Stjórnarráð landsins. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að um slíkt ríki nokkurs konar samstaða. Hvers vegna nú? Er það eingöngu vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur einsett sér að troða málinu í gegn með góðu eða illu? Eða tengist það umsóknarferlinu og aðildarviðræðum við Evrópusambandið eins og nýlegur fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB virðist gefa til kynna? Það er alveg ljóst að Evrópusambandinu þætti þægilegra að eiga bara við hæstv. forsætisráðherra fremur en að öll mál tilheyrðu hinum ýmsu ráðherrum, þar með talið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svo ekki sé minnst á þingið. Þjóðþing Evrópuríkjanna hafa oft á tíðum gert Evrópusambandinu og embættismönnum þar lífið leitt og ég tala nú ekki um almenning í þeim löndum sem hvað eftir annað hefur skilað niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu eða kosningum sem ekki er í samræmi við það sem ætlast var til af hálfu Evrópusambandsins. Vissulega mundi það auðvelda mönnum lífið í Brussel ef einungis væri við hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að fást enda stóð til að fagna þessum áformum sérstaklega í yfirlýsingu sem svo var dregin til baka en hafði staðið til að samþykkja í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.

Ég held að við þurfum að skoða málið frá grunni, leggja það til hliðar og vinna að breytingum á Stjórnarráði Íslands í sátt og samlyndi, reyna að ná sem víðtækastri samstöðu og að ríkisstjórnin sýni að henni sé alvara með öllum þessum yfirlýsingum sem til þessa hafa reynst innihaldslausar. Hún fær tækifæri núna til að sýna að einhver alvara sé að baki þegar menn segja að þeir vilji ná samstöðu um málið. Ef ekki í þessu máli hvenær þá? Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands ætti að sýna gott fordæmi en ekki að samþykkja illa unnið frumvarp um að efla framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafans. Þvert á móti á að sýna gott fordæmi með vel unnu frumvarpi sem styrkir lýðræðið og eflir stöðu löggjafans á kostnað framkvæmdarvaldsins.