139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[15:57]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka málshefjanda, Vigdísi Hauksdóttur þingmanni, fyrir að standa fyrir þessari þörfu umræðu. Mig langar að nota þetta tækifæri til þess að tala aðeins um þingsályktun sem samþykkt var í þinginu á síðasta ári um að skapa hér hagstætt lagalegt umhverfi eða skjól fyrir upplýsinga- og tjáningarfrelsi, því að þeir sem eiga allt sitt undir upplýsinga- og tjáningarfrelsi, t.d. fjölmiðlar um víða veröld, eru tilbúnir að greiða mun hærra verð fyrir geymslu gagna en þeir sem ekki þurfa á því skjóli að halda sem umrædd þingsályktun felur í sér.

Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að hvetja ríkisstjórnina til að taka þetta verkefni sem Alþingi hefur falið henni að gera alvarlega. Verkefnið hefur hlotið gífurlega athygli á erlendri grundu og í því felast að mínu mati gríðarleg tækifæri fyrir gagnaversiðnaðinn hér á landi.

Ég tel að við eigum að setja fókusinn á að selja virðisaukandi hágæðaþjónustu fyrir kröfuharða viðskiptavini sem nýtt geta sér þá lagalegu sérstöðu sem þingsályktunin felur í sér en einblína ekki á að vera hér með einhver heildsölunetþjónabú sem eru með lágmarksþjónustu og lítinn virðisauka og ganga í raun út á það að við séum bara eina ferðina enn að selja allt of ódýra orku.