139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er helst til varkár í orðum að mínu mati, sérstaklega finnst mér það út af spurningunni sem ég beindi til hennar um það hvort þetta færi ekki þvert gegn niðurstöðum þingmannanefndarinnar. Ég tel að að minnsta kosti hvað varðar þá breytingu sem við höfum mest rætt um sé farið þvert gegn niðurstöðum þingmannanefndarinnar. Innihaldið í þessari breytingu er í miklu ósamræmi við þær áherslur sem þingmannanefndin hafði uppi um þau mál sem hér eru til umræðu. Eins og fram kom fyrr í umræðunum er ýmislegt annað í þessu frumvarpi þar sem er verið, eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir orðaði það, að koma til móts við athugasemdir úr skýrslu þingmannanefndarinnar. Það er alveg rétt. (Forseti hringir.) En í þessu stóra atriði tel ég, hvernig sem við orðum það nákvæmlega, að þarna sé um að ræða að minnsta kosti verulegt (Forseti hringir.) ósamræmi.