139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:18]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Allt orkar tvímælis þá gert er og kannski ekki jafnmikið á nokkrum vettvangi og pólitík vegna þess að þar ræður geðþóttinn, þar ráða sjónarmiðin, hugsjónirnar og alls kyns hlutir sem geta myndað margs konar flækjufætur.

Gjörðin að vekja upp landsdóm voru mikil mistök. Ég skynja að það var gert af góðum hug fyrir eðlilegu og æskilegu réttarkerfi og réttlæti en reynslan hefur sýnt að margt hefur farið úrskeiðis síðan enda menn leikið út og suður í þeim efnum.

Það sorglega er, virðulegi forseti, að þær reglur sem hafa verið smíðaðar og tálgaðar til í meðferð uppvakningar á landsdómi standast ekki réttarreglur né reglur um sanngjarna málsmeðferð. Landsdómsmálið er ekki bara undarlegt mál, það er skandall. Það er skandall í sögu íslensku þjóðarinnar og Alþingis um leið. Allar forsendur ákærunnar voru byggðar í pólitísku moldarflagi, ekki á sandi, hvað þá á bergi heldur í pólitísku drullusvaði, þar sem þingmenn úr stjórnarflokkunum léku samningaleiki í atkvæðagreiðslum þar sem hvorki var gætt jafnræðis né sanngirni.

Alþingi hefur brotið íslensk lög um eðlilegan framgang réttarkerfis og dómskerfis með afskiptum sínum af meðferð og tilurð landsdóms eftir að upphafleg skýrsla kom fram sem hv. þm. Atli Gíslason stýrði, margtætt málið og nagað og músarbitin þar eru orðin mörg og þau eru pólitísk. Það sannast nú sem oftar að sárt bítur soltin lús og það hefur ríkisstjórnin gert í þessu efni. Sárt hefur hún bitið vegna hefndarþorsta á pólitískum grunni. Það er ekki björgulegt og til eftirbreytni og skilar engum árangri, hvorki í réttlæti né í hugmyndum fólks, vilja fólks, og er í raun árás á ósköp venjulegt brjóstvit almennings í landinu og eðlilegan skýrleika.

Þegar fram líða stundir mun sagan dæma þroskastig þingmanna á þessum árum landsdómshugmynda. Hún mun dæma það þroskastig lágt og vanframkvæmt í svo mörgum þáttum. Látum liggja á milli hluta að landsdómur er í raun uppvakningur úr fortíðinni, settur á sínum tíma til ákveðinna markmiða og þjónustu, ákveðins aðhalds, en í dag er landsdómur úreltur miðað við það sem almennt gerist og tíðkast í nútímareglum og vinnubrögðum þeirra réttarríkja sem lengst hafa náð og menn telja í fararbroddi þótt allt orki tvímælis í þessum efnum eins og ég gat um í upphafi.

Uppvakningur í líki landsdóms. Maður þakkar bara fyrir, virðulegi forseti, að þessum hópi alþingismanna og ríkisstjórnar sem klifar á þessum uppvakningsmálum detti ekki í hug að fara í heimsókn á Rauða torgið í Moskvu til að vekja upp múmíuna sem þar liggur í grafhýsi. (Gripið fram í.) Þetta er góð hugmynd já, en við höfum önnur verk að vinna sem skipta meira máli fyrir okkur í dag. (Gripið fram í.) Látum Lenín liggja í friði en hann mun vera vel greiddur í múmíubúningi sínum. Það verður ekki sagt um núverandi ríkisstjórn að hún sé vel greidd. Hún er með kolúfið hár sem stendur í allar áttir og ég tala nú ekki um ýmislegt sem af því leiðir. Hún byggir á því gamla að sárt bítur soltin lús. Það er ekki ríkisstjórn sem Íslendingar eiga skilið.

Virðulegi forseti. Ekki er mikill metnaður, í raun enginn metnaður, að leggja upp með þau vinnubrögð að kenna öðrum um, kenna öðrum um. Sá er málflutningur hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur (Gripið fram í: Engin ábyrgð.) og samfylgdarmanna hennar. Það er nákvæmlega rétt, engin ábyrgð, að kenna öðrum um. Að keyra fram landsdóm af því tilefni sem gert var með því að hengja einn mann á snaga er náttúrlega með ólíkindum lágkúrulegt. Það minnir ekki á neitt annað en þegar svokallaðir pörupiltar, kannski fimm, sex, kasta grjóti í rúðu, rúðan brotnar og þeir taka sig saman allir nema einn og kenna einum um. Er þetta það sem við viljum gera í íslensku siðferði og viðmiðun, íslenskri ábyrgð? Nei, þetta er ekki það sem við viljum gera. Þetta er það sem ríkisstjórnin gerir.

Hversu oft hefur hæstv. forsætisráðherra bent á að allt sem heita ófarir sé sjálfstæðismönnum að kenna? Sjálfstæðismenn eru sem betur fer bara venjulegt fólk af því bergi brotið, íslensku bergi, þar sem lögð hefur verið áhersla á áræði og áhættu. Þá kunna mistök að fylgja. Við verðum að horfast í augu við að menn verða þá líka að reikna með ákveðinni ábyrgð. En ef kæra átti einhverja, átti þá ekki að kæra þá ráðherra sem voru í ríkisstjórninni á undan þeirri sem nú situr? Átti ekki að kæra til að mynda hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur? Auðvitað átti hún að vera innifalin ef menn vildu ekki vinna þetta eins og pörupiltar.

Engin rök eru fyrir því í pólitík þar sem allir reyna að gera sitt besta, með misjöfnum árangri þó, að kæra fyrir hugsanleg og í raun ósýnileg afglöp í starfi. Það er bara hlutur sem menn verða að reikna með eins og að það getur rignt í flekkinn. Ef það hefði átt að kæra ráðherra, ég nefndi núverandi ríkisstjórn, ætti ekki að kæra hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon fyrir að hafa látið skrifa undir hina fyrri Icesave-samninga vitandi að hann hafði ekki þingmeirihluta til þess? Auðvitað voru það afglöp. Ég held því ekki fram að það hefði átt að kæra hann en miðað við það sem menn gera núna er ósamræmi í þessu öllu.

Svona mistök hafa fylgt hæstv. fjármálaráðherra lengi. Ég minnist þess um 1980 þegar hann var í hlutverki samgönguráðherra að hann heimilaði sölu á Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu í Árnessýslu eða jörðum tengdum þeim vegna sorpvinnslu í Árnessýslu án þess að hafa til þess nokkra heimild, enga heimild til þess, hvorki í 6. gr. fjárlaga né öðru. Hann braut lög og lét selja einhverjum svokölluðum gæðingum eignir til að þéna á.

Hverjir björguðu hæstv. fjármálaráðherra, þáverandi samgönguráðherra, út úr því máli? Það var fjárlaganefnd Alþingis sem tók af skarið og borgaði án þess að til væri eðlileg heimild fyrir því á Alþingi. Allt í þessum efnum getur verið kæruefni og álitamál. En aumingjaskapurinn er mikill, virðulegi forseti, hjá hv. þingmönnum, stjórnarsinnum sem settu sig í þá stellingu að vera pörupiltarnir sem bentu á einn og sögðu: Þetta er honum að kenna. Hvað er að þessu liði? Því er ekki bara vorkunn, miklu verr er komið fyrir því fólki en svo að hægt sé bara að vorkenna því. Þetta er illgirni sem á ekki að tíðkast í fremstu víglínu samfélags okkar.

Virðulegi forseti. Afskiptasemi þingsins eftir að tilkynnt var um ákæru — ég geri mikinn mun á því hver var niðurstaða nefndarinnar sem vélaði um málið og hvernig framgangurinn hefur verið síðan. Að mínu mati var margt álitamál í niðurstöðu nefndarinnar en að henni var faglega staðið að mörgu leyti undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar. Alveg sama þó að maður væri ekki sammála öllum þáttum var faglega að henni staðið. En kannski var hún of saklaust sett upp fyrir refina sem tóku við málinu, fyrir refina sem bjuggu til farveg sem hefur leitt til tortryggni, úlfúðar, öfundar, óvissu og vanlíðunar í íslensku samfélagi, því það hefur gerst síðan.

Það er einfaldlega svo að hægt er að treysta fólki a.m.k. 99%. Fólk metur sitt, sama hvað sagt er. Það metur sitt og reynsla þess, brjóstvit, lífsviðhorf, almenn venja í samfélagi okkar tryggir að af því leiðir almenn sanngirni. En með afskiptasemi Alþingis og breytingum á lögum um landsdóm eftir að tilkynnt er að lögð verði fram kæra, í raun breytingum í meðferð málsins og öllum undirbúningi, er náttúrlega verið að smíða hluti sem búa til vandamál, búa til misræmi. Þá er ekki gætt jafnræðis eða réttlætis en það eigum við að hafa í heiðri í öllum slíkum málum.

Það er komið að því í málinu að hæstv. innanríkisráðherra ætti auðvitað að draga það til baka vegna þess að það er ekki tækt fyrir Alþingi miðað við almennar réttarreglur ríkis, það er ekki tækt. Ekki er hægt að velja einn part úr þessu, eina lummu af mörgum, og segja: Þessi er þokkaleg, í henni eru rúsínur sem henta ríkisstjórninni. Taka verður á þessu í heild og miklu skiptir að menn skirrist ekki við að þora að gera slíkt.

Það væri líka í anda hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, að draga svona fásinnu til baka því að bæði hefur hann sterka réttlætiskennd, það hefur sýnt sig lengi, og hann hefur stórt hjarta. Það eru kannski bestu kostirnir í fari stjórnmálamanna. En hann hangir á snaganum hjá hæstv. Jóhönnu, dinglar í brúðuleikhúsinu þar sem brúðurnar mættu vera betur gerðar. Jón gamli heitinn Guðmundsson brúðugerðarmaður gerði snjallar brúður á sínum tíma á Íslandi, brúður sem voru sýndar um allt land og fólk hafði gaman af og gleði. Þær sprikluðu og töluðu og þær töluðu mannamál í takt við anda fólksins í landinu. Nú sitjum við uppi með nýtt brúðuleikhús, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem engin samstaða er um neitt, þar sem öllu er vísað á bug, stóru og smáu, hvort sem um er að ræða virkjanir til að vekja atvinnulíf landsins til dáða, auka atvinnu fyrir 15–20 þúsund íslenska atvinnuleysingja, hvort sem það er til þess að styrkja og hleypa eðlilegu fjöri í rekstur sjávarútvegs í landinu sem er burðarás íslenska samfélagsins. Hér væri ekkert Alþingi, hér væri ekki sjálfstæð þjóð ef ekki hefði notið við öflugs sjávarútvegs í allri sögu lýðveldisins.

Þetta á að rækta, þessu á ekki að rugga. Jafnvel vanir sjómenn sem eru innan borðs á Alþingi láta draga sig á eyrunum — ég nota ekki forskeytið — í þeim efnum, tala máli fjármálaráðherra, forsætisráðherra, tala út í loftið gegn reynslu sinni, gegn verksviti sínu og brjóstviti — til hvers? Til að þjónka undir herrana, ráðherrana, kannski til að safna prikum fyrir einhverja stóla í framtíðinni, ég skal ekki segja um það. Þetta er allt í skötulíki og öll málsmeðferð landsdóms er skandall fyrir íslenska þjóð og sérstaklega Alþingi þar sem pörupiltarnir hópuðu sig saman, gerðu allir einhver mistök en bentu á einn í hópnum og sögðu: Þetta er honum að kenna. Við erum saklausir, (Forseti hringir.) berum enga ábyrgð.