139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði töluvert um samráð í ræðu sinni. Í umræðunum í gær var mikið fjallað um efni þessa frumvarps og hvernig það fæli í sér flutning valds frá Alþingi Íslendinga til framkvæmdarvaldsins og hæstv. forsætisráðherra og hversu mikið það gengi í rauninni gegn öllu því sem hefur verið talað um eftir hrunið sem varð hérna, gegn rannsóknarskýrslu Alþingis og niðurstöðum þingmannanefndarinnar sem fjallaði um hana og fleira.

Núna snýst umræðan um samráð sem forsætisráðherra talar um að hafi verið haft um þetta frumvarp. Þegar frumvarp um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið kom fram var lítið samráð haft enda lá ljóst fyrir að flestallir voru andsnúnir því, í það minnsta allir sem komu að sjávarútvegi og landbúnaði. En eftir á var farið í samráð, sem nú er búið að vera í gangi og hæstv. forsætisráðherra vitnar til, vegna þess að Alþingi Íslendinga tók fram fyrir hendurnar á hæstv. forsætisráðherra.

Núna kemur fram frumvarp sem er miklu viðameira og felur í sér miklu stærri og róttækari breytingar. Telur hv. þingmaður ekki rétt að hafa samráð um grundvallarbreytingar á því skipulagi sem hefur verið hér í langan tíma áður en þetta frumvarp varð til? Er eðlilegt að samráð um þetta mál hafi eingöngu verið innan veggja Stjórnarráðsins? Var haft samráð við þingflokk Sjálfstæðisflokksins? Er ekki eðlilegt að svona mál séu unnin í samráði (Forseti hringir.) áður en frumvörp eru lögð fram en ekki boðið eftirásamráð, eins hefur verið gert?