139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

innheimtulög.

643. mál
[20:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008. Það er á þskj. 1133.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á innheimtulögum og er þá höfð hliðsjón af framkvæmd laganna og athugasemdum eftirlitsaðila, einkum Fjármálaeftirlitsins. Helstu breytingartillögur snerta vernd fjár á vörslufjárreikningum, orðalag í innheimtuviðvörun varðandi næsta stig innheimtuaðgerða, hækkun starfsábyrgðartryggingar samkvæmt reglugerð, ákvæði um Lögmannafélag Íslands sem eftirlitsaðila en ekki úrskurðarnefnd lögmanna, Neytendastofu sem eftirlitsaðila með eigin innheimtustarfsemi, flutning sérstaks eftirlits með innheimtu opinberra aðila frá Fjármálaeftirlitinu til Neytendastofu, lagaákvæði varðandi fjárhagslega stöðu innheimtuaðila, afturköllun innheimtuleyfis í stað leyfissviptingar og niðurfellingu innheimtuleyfis. Þá er meðal annars gert ráð fyrir heimild til stjórnvaldssekta fyrir gróf eða ítrekuð brot gegn góðum innheimtuháttum.

Að því er varðar innheimtuviðvörun samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er ekki eingöngu vikið að því að hún skuli send eftir gjalddaga kröfu heldur er bætt við orðunum „eindaga ef síðar er“ til að taka af tvímæli um þetta atriði. Þá er með hliðsjón af ákvæðum 72. gr. víxillaga kveðið á um að gjalddagi verði næsta virkan dag á eftir gjalddaga ef gjalddagann ber upp á löghelgan dag eða dag þegar bankastofnanir eru almennt lokaðar. Kveðið er á um að greiðslu verði eigi krafist fyrr en næsta virka dag eftir löghelgan dag eða bankalokunardag og að innheimtuviðvörun sé eigi dagsett og send fyrr en næsta virkan dag þar á eftir ef hún hefur þá ekki borist.

Orðalag hvað snertir innheimtuviðvörun er gert mildara þannig að ætíð sé vikið að næsta innheimtustigi, t.d. milliinnheimtu, en ekki kveðið strax á um málshöfðun eða aðrar innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga. Innheimtulög snerta ekki svokölluð seðilgjöld nema í undantekningartilvikum þegar unnt er að senda innheimtuviðvörun um leið og greiðslukröfur fyrir gjalddaga. Er í frumvarpinu kveðið á um að eigi skuli í þeim tilvikum krefjast greiðslu á seðilgjaldi eða samsvarandi gjaldi nema laga- eða samningsheimild sé fyrir hendi.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir skýrari ákvæðum í 10. gr. innheimtulaga um meðferð innheimtufjár á vörslufjárreikningum til að tryggja betur hag kröfuhafa. Sambærilegar reglur um vörslufjárreikninga er að finna í lögum um miðlun vátrygginga, lögum um lögmenn og lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, svo sem nánar er greint frá í athugasemdum við 4. gr.

Í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu varðandi starfsábyrgðartryggingu. Er þar lagt til að ákvæðið sé sambærilegt og hjá lögmönnum. Gert er ráð fyrir að efnahags- og viðskiptaráðherra kveði á um það í reglugerð til hvaða tjóns starfsábyrgðartrygging skuli taka, tryggingarfjárhæðir, heildarfjárhæð bóta innan hvers tryggingatímabils, eigin áhættu og brottfall tryggingarinnar.

Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu á 15. gr. innheimtulaga og kveðið á um að Lögmannafélag Íslands sé eftirlitsaðili í stað úrskurðarnefndar lögmanna. Er félagið almennur eftirlitsaðili með lögmönnum en einhverjum málum kann að verða vísað til úrskurðarnefndar sem fer með agavald gagnvart lögmönnum.

Í sömu grein er gert ráð fyrir að Neytendastofa verði sérstakur eftirlitsaðili með almennri innheimtu á eigin kröfum. Enginn sérstakur eftirlitsaðili hefur verið með slíkri innheimtu nema hvað efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur haft viss afskipti af erindum um þessi mál. Taka má fram að í Noregi er enginn eftirlitsaðili með slíkri starfsemi. Um úrræði og málsmeðferð fer samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sem Neytendastofa starfar eftir. Þar undir eru ákvæði um málskotsrétt aðila til áfrýjunarnefndar neytendamála. Neytendastofa mundi einnig hafa eftirlit með starfsemi opinberra aðila sem innheimta gjöld fyrir þjónustu.

Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir fjárhagslegu eftirliti Fjármálaeftirlitsins með innheimtuaðilum sem það hefur eftirlit með. Getur eftirlitið gripið fyrr inn í en verið hefur stefni í vandræði.

Í 10. gr. frumvarpsins, um breytingu á 17. gr. innheimtulaga, er gert ráð fyrir að kveðið verði á um afturköllun innheimtuleyfis í stað sviptingar þess.

Í 11. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir nýrri grein í lögunum, 17. gr. a, sem fjallar um niðurfellingu innheimtuleyfis ef leyfið er ekki nýtt, því afsalað eða starfsemi stöðvuð.

Í 12. gr. frumvarpsins er meðal annars gert ráð fyrir nýrri heimild til að Fjármálaeftirlitið geti í vissum tilvikum gripið til stjórnvaldssekta vegna brota á ákvæðum 6. gr. laganna um góða innheimtuhætti ef um gróf eða ítrekuð brot er að ræða.

Í 13. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu á refsiákvæðum laganna þannig að möguleiki á beitingu refsingar vegna rangra eða villandi upplýsinga nái ekki einungis til upplýsinga um hagi fjármálafyrirtækja heldur annarra innheimtuaðila en fjármálafyrirtækja.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því í kostnaðarmati að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, muni einungis hafa í för með sér óveruleg útgjöld fyrir ríkissjóð sem rúmist innan fjárheimilda. Er þetta nánar skýrt í kostnaðarumsögn.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu þessari verði frumvarpinu vísað til viðskiptanefndar.