139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[14:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Kristjáns Möllers. Það hefur tekist ágætlega til með vinnu í nefndinni um þetta mál og náðst um það nokkuð víðtæk sátt. Það er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að þessu máli og hann hefur sýnt góða forustu í því að leiða ágreiningsmál til lykta.

Nú er aftur á móti ófrágengin rammaáætlunin sjálf og það er gríðarlega mikilvægt að vinnu við hana verði hraðað. Í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr er kveðið á um að ekki verði teknar ákvarðanir um frekari virkjanir á meðan rammaáætlun er ófrágengin. Það er algerlega óviðunandi við þær aðstæður sem eru í samfélaginu að við skulum ekki nýta þau tækifæri sem við höfum á borðinu og að ekki skuli vera hægt að taka ákvörðun um augljósa virkjanakosti eins og í neðri hluta Þjórsár. (Forseti hringir.) Við það verður ekki búið, virðulegi forseti. Í kjölfarið á þessari vinnu þarf að ýta úr vör og fara að koma hjólunum af stað.