139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

stuðningur ríkisins til starfsendurhæfingar.

587. mál
[15:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þennan mikilvæga þátt í félags- og atvinnulífi landsmanna, starfsendurhæfingarstöðvarnar og rekstur þeirra, og tek undir spurningu hv. síðasta ræðumanns, Kristjáns Möllers, hvað varðar þátt stöðvarinnar austur á landi í þessu efni.

Ég vona að hæstv. ráðherra deili þeirri sýn á þennan málaflokk með mér að hér sé um einn af grunnþáttum velferðarþjónustunnar að ræða. Starfsendurhæfingarstöðvarnar og rekstur þeirra er klárlega einhver mikilvægasti partur af velferðarkerfinu og, eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kom að, er eitt af fáum viðfangsefnum og tækjum þeirra sem eru án vinnu vegna sjúkdóma og annars, e.t.v. félagslegra þátta, til að þreyja biðina milli atvinnuleysis og atvinnu. Þess vegna er mjög erfitt að horfa til þess að þessum þætti í velferðarkerfinu sé hrint út af borði sakir skorts á fjármagni.

Það kom vel fram í máli hæstv. ráðherra að núverandi stjórnvöld hafa einmitt hlíft þessum málaflokki í nauðsynlegum sparnaðartillögum. Sparnaðaraðgerðirnar eru vissulega gríðarlegar sem þessi ríkisstjórn hefur þurft að ráðast í. Við þekkjum vel töluna 170 milljarðar í niðurskurð á þremur árum, sem engin önnur þjóð hefur þurft að ráðast í á jafnstuttum tíma, og þess vegna þarf auðvitað að grípa víða niður í sparnaði. En ég vona að hæstv. ráðherra deili þeirri sýn með mér á þennan málaflokk að hér sé um einn af merkustu grunnþáttum velferðarkerfisins að ræða og við munum ekki ganga frekar fram í niðurskurði til þessa (Forseti hringir.) málaflokks á komandi mánuðum en gert hefur verið.