139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum, nr. 788 á þskj. 1398.

Frumvarpið er lagt fram samhliða nýrri áætlun um losun gjaldeyrishafta sem kynnt var í lok marsmánaðar sl. Eins og kunnugt er voru gjaldeyrishöft sett á í nóvember 2008 í kjölfar þess að Ísland varð fyrir barðinu á óvenjuumfangsmikilli og harkalegri bankakreppu í október 2008. Minnkandi tiltrú á íslenskum fjáreignum sem fylgdi í kjölfarið skapaði hættu á stórfelldu útstreymi fjármagns með afar háskalegum afleiðingum fyrir gengi krónunnar sem þegar hafði lækkað. Mikið útstreymi fjármagns þá þegar og í kjölfarið hefði getað valdið enn stórfelldari gengislækkun krónunnar og meiri verðbólgu en raun varð á. Þar sem efnahagsreikningar heimila og fyrirtækja einkennast bæði af mikilli skuldsetningu og háu hlutfalli lána í erlendum gjaldmiðlum og verðtryggðum lánum hefði það getað hrundið af stað mikilli hrinu vanskila og gjaldþrota með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðarbúskapinn. Vegna þessa greip Seðlabanki Íslands til aðgerða 10. október 2008 sem miðuðu að því að hefta tímabundið útflæði gjaldeyris. Í ljósi hinnar miklu áhættu fyrir þjóðarbúskapinn var hins vegar talið að gjaldeyrishöft væru, þrátt fyrir að vera óheppileg, óhjákvæmilegur þáttur aðgerða er miðuðu að því að stuðla að stöðugleika krónunnar þegar millibankamarkaður með erlendan gjaldmiðil var opnaður á ný í byrjun desember 2008.

Sem fyrr segir samþykkti ríkisstjórnin 25. mars sl. nýja ályktun um afnám gjaldeyrishafta í áföngum í samræmi við tillögu Seðlabanka Íslands þar um sem unnin var í samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið. Áætlunin er ekki tímasett heldur ræðst framvindan af þróun efnahagslegra skilyrða og árangri af einstökum þáttum og aðgerðum í áætluninni sjálfri. Til að ná markmiðum um afnám hafta án þess að fjármála- eða gengisstöðugleika verði teflt í tvísýnu er í frumvarpinu lagt til að gjaldeyrishöft verði framlengd til ársloka 2015. Ef aðstæður leyfa verður hægt að afnema höftin fyrr. Það er mikilvægt að hafa í huga að tímasetningin er höfð í rýmra lagi til þess að unnt sé að setja fram áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem náð geti að vera trúverðug óháð því hvaða ákvarðanir verða teknar í peningamálum að öðru leyti fram til ársloka 2015.

Þar sem nú er fyrirsjáanlegt að gjaldeyrishöftin muni vara lengur en ætlað var í upphafi þykir rétt að lögfesta reglur um gjaldeyrismál sem Seðlabanki Íslands hefur sett með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um gjaldeyrismál. Í frumvarpinu er því lagt til að 16 nýjum greinum, greinum 13 a til 13 p, verði bætt við lögin á eftir 13. gr. gildandi laga. Í greinunum er að finna þau efnisákvæði sem nú eru í reglum Seðlabankans, nr. 370/2010, sem og leiðbeiningum með reglunum með minni háttar breytingum sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við einstakar greinar.

Samkvæmt ákvæðunum eru ýmsar hömlur settar á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti en gert er ráð fyrir að þessi ákvæði gildi til 31. desember 2015. Þá eru einnig lagðar til breytingar á refsiákvæðum laganna og nokkrar aðrar minni háttar breytingar sem leiða af framangreindum breytingum. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða II í lögum um gjaldeyrismál og ákvæði til bráðabirgða IV í tollalögum, nr. 88/2005. Þar er lagt til að framlengd verði fyrirmæli laganna um að skrá skuli viðskiptaverð vöru í erlendum gjaldmiðli á útflutningsskýrslu en miðað er við 31. desember 2015.

Rétt er að vekja athygli á því að með því að færa reglur um gjaldeyrishöftin í lög er fyrirsjáanlegt að þingið muni þurfa að gera reglulega breytingar á lögunum líkt og Seðlabankinn hefur með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra þurft að gera á reglunum. Þá er einnig mikilvægt að frumvarpið fái afgreiðslu á þingi áður en sumarleyfi hefjast þar sem núverandi heimild til að setja á gjaldeyrishöft rennur út 31. ágúst næstkomandi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.