139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:22]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Björn Valur Gíslason undraðist það í ræðu sinni að hv. ályktunarflytjandi skyldi koma með þetta þingmál daginn eftir að hann setti upp þrefalda geislabauginn og kenndi okkur hinum hvernig á að haga sér í orðræðu og samskiptum þingmanna í millum. Þess vegna er rétt að upplýsa það sem ég veit fyrir tilviljun því að ég var sjálfur meðflutningsmaður máls, reyndar næsta máls hér á undan, að það háttar ekki þannig til að þetta mál hafi allt í einu komið á dagskrá eins og stundum er um þingmál. Þau eru lögð fram og síðan líður tími, mislangur eftir atvikum, og svo eru þau komin á dagskrá. Þá hlýtur maður að standa við það að flytja mál sitt. Oftast er það nú langþráð að það skuli hafa orðið. Í þessu tilviki háttaði þannig til að eftir að þau mál fóru á dagskrá sem komu frá ríkisstjórninni var hverjum þingflokki sérstaklega gefinn kostur á að setja sitt mál á dagskrá. Þingflokksformaður okkar brást þannig við: Takið það mál sem hefur lægsta númerið, það sem hefur beðið lengst.

Það reyndist vera mál mitt um virðisaukaskatt af vef- og rafbókum. En hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins sem heitir Gunnar Bragi Sveinsson, valdi sitt eigið mál. Hann valdi sérstaklega það mál daginn eftir að hann kom með siðaboðskap sinn. (Gripið fram í.) Hann gat valið önnur mál. (Gripið fram í.) Framsóknarþingmenn eru hér með ýmis góð mál, (Gripið fram í.) en hann valdi sitt eigið, ótiltekið númer hvað það var vegna þess að hann hefur talið að það væri hið eðlilega framhald af hinum nýja ferli hans sem siðapredikara á Alþingi Íslendinga.