139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé ítrekað féllu þau ummæli sem ég er að vitna í hér á göngum Alþingishússins þar sem hv. þingmaður var að gera athugasemdir við störf lögreglunnar sem stóð í mikilli vörn á bak við húsið, bakdyramegin, og var að handtaka þar mótmælendur, nokkurn fjölda mótmælenda, og geymdi þá í böndum upp við Alþingishúsið og höfðu hér miklar og sterkar varnir við. Þá féllu þau ummæli sem ég vitnaði hér til og ég stend við þau.

Ég veit ekkert um það, ég hef ekki séð þessa fundargerð forsætisnefndar. [Frammíköll í þingsal.] Ég hef ekki spurt þá sem voru á fundinum sérstaklega um það hvort verið er að vitna í ummæli mín þarna eða ekki. Það verður bara að koma í ljós ef og þegar þetta mál verður rannsakað.