139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hafa hv. þingmenn ekki langan tíma til að tala og þar af leiðandi kannski ekki sanngjarnt að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar og þingmann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvert sé mikilvægasta verkefni Íslands í utanríkismálum á grundvelli ræðu hans. Mér fannst hann eyða ótrúlega litlum tíma í Norðurlönd sem hafa verið ofarlega í utanríkisstefnu okkar og eins þá norðurslóðaverkefnið sem þingmaðurinn reyndar nefndi.

Nú er ljóst að í það minnsta þrír flokkar hér á þinginu, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Sjálfstæðisflokkurinn og nú nýverið Framsóknarflokkurinn, hafa lýst því yfir að Íslandi sé best borgið utan Evrópusambandsins. Engu að síður eigum við í þessum aðildarviðræðum sem voru samþykktar hér með afar litlum meiri hluta sumarið 2009 við allt aðrar aðstæður á Íslandi og kannski við allt aðrar aðstæður í Evrópusambandinu líka. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hvert er mikilvægasta verkefni Íslands í utanríkismálum nú um stundir að mati hv. formanns utanríkismálanefndar?