139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara í þessu máli sem hæstv. utanríkisráðherra þarf að leiðrétta mál sitt því ráðherrann hefur raunverulega orðið uppvís að svo miklum hálfsannleik undanfarna mánuði að þau eru orðin ansi mörg málin sem hann ber ábyrgð á sem hafa ekki komist rétt til þjóðarinnar, samanber það sem kom upp í ræðu á undan að aðalhvatinn að því og áhuginn á að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu var sá að við mundum geta gengið inn í evruna á einhverri hraðferð. Eins talaði hæstv. utanríkisráðherra um að við værum á fleygiferð og á hraðbraut inn í Evrópusambandið sem að sjálfsögðu er ekki rétt því að hvers vegna ætti Ísland að fá einhverja undanþágu í því efni frekar en aðrar þjóðir? Ráðherranum var bent á þetta mörgum sinnum í mörgum ræðum hér.

Sú staðreynd að þingið hefur lokaákvörðunina í þessu máli varðandi umsóknina að Evrópusambandinu grundvallast fyrst og fremst á því að þjóðaratkvæðagreiðslan er ráðgefandi. Ef t.d. hefði verið farið að ráðum sjálfstæðismanna í þessu ferli sem vildu tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, og sú stefna kom líka upp hjá Framsóknarflokknum á ákveðnu tímabili í sögu hans, hefði verið haldin þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara ætti í þetta ferli eða ekki. Hefði niðurstaða hennar orðið já hefði þingið fengið umboð til að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þá hefðu verið haldnar kosningar á milli og fullveldisafsalsákvæði sett inn í stjórnarskrána og hægt að hafa umsóknina bindandi. En eins og þetta er núna er þetta ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég minni t.d. á að Icesave-kosningarnar voru bindandi vegna þess að það er ákvæði um að þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem forsetinn vísar í þjóðaratkvæði (Forseti hringir.) séu bindandi að stjórnarskrá og þess vegna bindandi fyrir stjórnvöld þó að stjórnvöld hafi ekki farið að þeim þjóðaratkvæðagreiðslum. (Forseti hringir.) En það er þingið sem hefur síðasta orðið í þessum málum.