139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikill er máttur Davíðs Oddssonar. Hann hefur væntanlega skrifað þetta, þetta er forsíða The Economist: „Saving the Euro“. Væntanlega skrifar hann ...

(Forseti (RR): Forseti áminnir hv. þingmann um að tala íslensku í ræðustól.)

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar. Hann hefur væntanlega skrifað á ensku eitthvað sem útleggst „Björgum evrunni“ í The Economist, sem er nafn sem við verðum eiginlega að halda okkur við, virðulegi forseti. Í hinu virta erlenda blaði, The Daily Telegraph, er Evrópa á barminum. Í Foreign Affairs er grein um hvernig bjarga eigi evrunni og Evrópusambandinu. Og þetta er bara eitthvað sem ég fékk núna um helgina. Ég fór í bókabúð og hvet hv. þingmann til að gera það. Þetta er auðvitað allt Davíð Oddsson. Það er enginn vafi, það var Davíð sem gerði þetta. Það getur ekki verið neinn vandi á ferð.

Virðulegi forseti. Talandi um spillingu þá hafa endurskoðendur Evrópusambandsins ekki treyst sér til að skrifa upp á reikningana — ég man ekki hvort það er í 11 eða 13 ár — vegna þess að þeir hafa ekki hugmynd um hvert fjármunirnir fara.

Ég hélt að hv. þingmaður kæmi og legði út af því hvernig ætti að leysa þetta. Menn eru almennt á því að þetta gangi ekki upp nema annaðhvort verði farið í stóraukinn samruna, bæði pólitískan og efnahagslegan, vegna þess að ekki gangi upp að hafa myntina án þess að vera með efnahagsleg tæki til að taka á löndunum, eða skipta evrunni í tvennt, annars vegar fyrir Norður-Evrópu, þá er vísað í Þjóðverja og Frakka, og hins vegar fyrir Miðjarðarhafslöndin. Ég hélt að hv. þingmaður mundi nýta þessar tvær mínútur til að fara yfir lausn á þessum vanda því það er útilokað annað en Samfylkingin hafi lausn á þessu.