139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hélt ágæta ræðu, kom víða við, en samt kom hann ekki inn á það atriði sem ég hef rætt nokkrum sinnum í dag og ég vildi gjarnan fá afstöðu hans til. Það er 48. gr. stjórnarskrárinnar, sem við höfum svarið eið að, og það að sumir tala um að þjóðaratkvæðagreiðsla hafi eitthvað að segja í sambandi við aðild að Evrópusambandinu. Ég vil spyrja hann að því hvort það sé eitthvað að marka hana.

Nú fer þjóðaratkvæðagreiðsla fram, búið er að gera samning, þjóðinni er sýndur sá samningur og síðan kemur þjóðin og greiðir um hann atkvæði. En ég fullyrði að sú atkvæðagreiðsla hefur ekkert gildi vegna þess að þeir þingmenn sem sitja á Alþingi þegar málið kemur þangað til afgreiðslu, og menn greiða atkvæði um það hvort þeir ætli að ganga í Evrópusambandið eða ekki, þá verða þingmenn að hafa í huga 48. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Þar með eru þeir ekki bundnir af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. reglur frá kjósendum sínum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það geti verið að það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði hér, að þjóðaratkvæðagreiðsla mundi skera úr um hvort Ísland gengi í Evrópusambandið eða ekki, sé bara ekki rétt, hvort það geti verið að hæstv. ráðherra hafi ekki farið með rétt mál.

Menn hafa líka sagt að þeir hafi þá sannfæringu að fara að þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þeir eru jú að greiða atkvæði um það hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki og þá eiga þeir að greiða atkvæði um það og ekkert annað. Þeir geta ekki vikið sér undan ábyrgðinni sem felst í því að bjóða sig fram til Alþingis og vera kosnir, þeir geta ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð með því að vísa í einhverja þjóðaratkvæðagreiðslu og taka enga afstöðu sjálfir.