139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

aðgerðir NATO í Líbíu.

[14:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er merkilegt að hæstv. ráðherra skuli ætlast til þess að hæstv. utanríkisráðherra svari fyrir stefnu Vinstri grænna í utanríkismálum og þá væntanlega utanríkismál almennt. Er ekki einmitt vandamálið í þessu tilviki það sem kom fram í máli þingflokksformannanna í gærkvöldi, að ekkert samráð hefði verið haft við Vinstri græna í þessu máli?

Var hæstv. fjármálaráðherra sáttur við það hvernig samstarfsflokkurinn tók á þessu máli og hvernig það var afgreitt út úr ríkisstjórn? Finnst hæstv. fjármálaráðherra sem sagt í lagi að hæstv. utanríkisráðherra einn eða utanríkisráðherra í hverri ríkisstjórn taki ákvarðanirnar einn? Er það sem sagt ekki áhyggjuefni, hafi það gerst áður, að stöku ráðherrar hafi tekið ákvarðanir í utanríkismálum án þess að hafa samráð við aðra?

Svo ítreka ég spurninguna: Fordæmir hæstv. fjármálaráðherra aðgerðirnar í Líbíu almennt, eins og samflokksmenn hans, og það hvernig ákvörðunin var tekin?