139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

beiðni um opinn nefndarfund.

[14:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær skrifuðum við þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis bréf til hv. formanns nefndarinnar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, og óskuðum eftir því að haldinn yrði opinn fundur í nefndinni um þau frumvörp sem boðuð hafa verið varðandi fiskveiðistjórnarmálin og að sá fundur yrði haldinn á fyrsta reglulegum fundartíma nefndarinnar sem er í fyrramálið. Þetta bréf var skrifað um miðjan dag í gær og enn hefur ekki svar borist frá hv. formanni nefndarinnar að öðru leyti en því að okkur var send í morgun dagskrá fundarins sem ætlað er að verði á morgun á reglulegum fundartíma nefndarinnar. Þar er ekki gert ráð fyrir að þessi mál verði rædd þrátt fyrir óskir okkar og þrátt fyrir að það sé mjög skýrt í þingsköpum Alþingis að bregðast beri við ósk ef hún er borin fram af þriðjungi nefndarmanna eins og gert er í þessu tilviki.

Ég vek líka athygli á því sem við nefndum í bréfi okkar að til eru sérstakar reglur um opna fundi þingnefnda sem raunar eru komnar fram í frumvarpi til nýrra laga um þingsköp Alþingis. Ég hlýt þess vegna að harma það að hv. þingmaður skuli hvorki hafa virt okkur svars né heldur reynt að koma því á að þessi fundur yrði haldinn um þetta mikilvæga mál.