139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að koma aðeins upp og leiðrétta hv. þm. Mörð Árnason aftur. Þetta snýst ekki um gull. Það þýðir ekkert að koma trekk í trekk upp í ræðustól Alþingis og tala um að þessi tilskipun eða reglugerð ESB, sem verið er að innleiða, fjalli um eitthvað annað en hún gerir. Þetta snýst um spilliefni, þetta snýst um mengandi efni sem annaðhvort losna úr læðingi við vinnslu í námunni eða eru notuð til að leysa það efni sem verið er að sækja úr læðingi; efni sem verður eftir í námunni. Og þetta snýst um að ganga að lokum frá námum svo að grunnvatn mengist ekki og spilli dýralífi og leiði fólk til dauða. Þetta snýst um langtum alvarlegri hluti en þetta og við erum ekki að tala um gull eða silfur eða annað. Þetta er reglugerð sem nær ekki einu sinni yfir kjarnorkuúrgang af því að það er sérreglugerð um kjarnorku. Við skulum hafa þetta alveg á hreinu. Þessi reglugerð gengur út á meiri háttar spilliefni sem verða virk í námum þannig að ég kann ekki við að slík mál séu höfð í flimtingum og hreinlega varð að koma í andsvar við hv. þingmann.