139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[14:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alþingi Íslendinga stundar enn kranalagasetningu frá ESB. Verið er að taka í lög tilskipun um meðhöndlun spilliefna sem notuð eru eða falla til við námuvinnslu. Hér hafa ekki verið til slíkar námur, eru ekki til og verða ekki til í framtíðinni. Þrátt fyrir óteljandi spurningar í umhverfisnefnd um hvaða námur þetta séu í Evrópusambandinu fékk ég engin svör og þau er heldur ekki að finna í tilskipuninni. Alþingi Íslendinga er því að elta lagasetningu Evrópusambandsins fyrir eitthvað sem ekki er til.

Hér vil ég einnig minna á að í þessari lagagrein opinberast að Alþingi Íslendinga ræður ekki við það verkefni að mótmæla gerðum og tilskipunum sem koma frá Evrópusambandinu. Þetta er sóun á starfskröftum Alþingis. Ég skora á þingmenn að segja já við breytingartillögunni vegna þess að hér opinberast hvernig unnið er í ESB-máli hér á landi.