139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þykku og miklu nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

Nefndarálitið einkennist af því að áætlunin fékk mjög mikla umræðu í nefndinni. Við fengum fjölda gesta á okkar fund auk fjölda umsagna. Auk þess var tillagan send til allra fastanefnda þingsins til umsagnar og höfum við nýtt vel þá vinnu sem fram fór í nefndunum og tekið mið af þeim sjónarmiðum sem þar komu fram. Umsagnaraðilar fagna flestir tillögunni þótt sumir telji þörf á því að ganga lengra í að treysta jafnrétti en gert er.

Nokkur umræða varð um það í nefndinni í hversu ríkum mæli tilteknir liðir áætlunarinnar ganga einfaldlega út á að farið sé að lögum. Það er umhugsunarefni að þörf sé á slíkum átaksverkefnum til að minna opinbera aðila, stofnanir og fyrirtæki á að þeim beri skylda til að fara að landslögum.

Nefndin ræddi þónokkuð markmiðssetningu áætlunarinnar og einstakra verkefna hennar en ekki virðist alltaf skýrt hvert markmið einstakra verkefna er. Nefndin leggur ríka áherslu á að einstök verkefni hafi skýr og mælanleg markmið þannig að unnt sé að fylgjast með framgangi þeirra, meta stöðu þeirra og árangur af þeim. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt þegar horft er til þess að samkvæmt. 38. tölulið tillögunnar er gert ráð fyrir því að áætlunin verði árangursmetin og eftir atvikum endurskoðuð að tveimur árum liðnum.

Allmargir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við verkefni sem lýst er í 7. tölulið áætlunarinnar þar sem kveðið er á um að ráðuneytin stefni að því að ná 40:60 markmiðinu við skipun í nefndir, ráð og stjórnir og viðhalda því, samanber 15. gr. jafnréttislaga. Það er því skýr lagaskylda að tryggja sem jafnast hlutfall kynjanna og um 40:60 markmiðið. Leggur nefndin því til breytingu á ákvæðinu þessu til samræmis og bendir á mikilvægi þess að ráðuneytin fari að lögum um þetta efni og tryggi sem jafnast hlutfall kynjanna við skipun. Nefndin telur mikilvægt að upplýsingar um hlut kynjanna séu aðgengilegar og birtar opinberlega og leggur því til að auk þess að Jafnréttisstofa birti þessar upplýsingar á vef sínum verði ráðuneytunum skylt að gera það einnig fyrir lok hvers árs.

Nefndinni voru einnig kynnt sjónarmið þess efnis að mikilvægt væri að kynna hlutafélögum og einkahlutafélögum að 1. september 2013 tækju gildi ákvæði laga nr. 13/2010 sem leggja sambærilega skyldu á hlutafélög og einkahlutafélög þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn. Þegar ákvæðið tekur gildi skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn slíkra félaga þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Nefndin telur kynningu á þessari skyldu fyrirtækjanna falla vel að 20. tölulið áætlunarinnar sem fjallar um hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana, en þar er gert ráð fyrir að efnt verði til fræðslu um ábyrgð og skyldur stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið er þegar farið að vinna að þessum málum og á ráðstefnu sem Samtök atvinnulífsins og Félag kvenna í atvinnurekstri héldu nýlega kom fram breytt og jákvætt viðhorf til laganna, því að það væri talið að það skapaði líka tækifæri til þess að endurskoða stjórnarstarfið í fyrirtækjum og koma því í nútímalegra horf.

Nefndin ræddi mikið störf og stöðu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Í 3. og 4. tölulið tillögunnar er þeim falið að móta heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og opinberra stofnana og að vinna að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðuneytis. Þá er þeim samkvæmt 37. tölulið falin eftirfylgni framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum í samstarfi við Jafnréttisstofu og sérfræðinga ráðuneytisins. Jafnréttisfulltrúum er því falið ansi viðamikið hlutverk.

Nefndin bendir á að til stendur að gera ítarlegri verkefnalýsingar fyrir einstaka liði áætlunarinnar þar sem skýrt verður kveðið á um ábyrgðaraðila hvers verkefnis. Það breytir því ekki að ráðherra ber ábyrgð á því að þau verkefni sem Alþingi felur honum með samþykkt þingsályktunartillögu séu framkvæmd. Ráðuneytisstjóri stýrir svo ráðuneyti, samkvæmt lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, undir yfirstjórn ráðherra. Nefndin telur að verði fyrirliggjandi tillaga samþykkt sé ljóst að hlutaðeigandi ráðherra og ráðuneytisstjóri beri ábyrgð á því að sinna og ljúka þeim verkefnum sem eru í tillögunni.

Nefndin ræddi nokkuð kyngreiningu upplýsinga en í 16. gr. jafnréttislaga er kveðið á um að í opinberri hagskýrslugerð um einstaklinga og í viðtals- og skoðanakönnunum skuli greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því. Kyngreining upplýsinga er m.a. mikilvægur þáttur í kynjaðri fjárlagagerð, en 28. apríl sl. samþykkti ríkisstjórnin þriggja ára áætlun um áframhaldandi innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar.

Mikilvægt er að árétta lagaskylduna til að kyngreina gögn og framfylgja lögum um þetta efni. Leggur nefndin því til nýjan lið í áætlunina sem feli í sér að tryggt verði að farið sé eftir 16. gr. laganna. Nefndin áréttar mikilvægi þess að hið opinbera sinni lögbundinni skyldu sinni og leggur því til að þeir sem ekki sinna þessu lögbundna hlutverki verði áminntir í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda sé um að ræða brot er varði við 21. og/eða 38. gr. laganna.

Nefndin gerir tillögu um nýtt verkefni sem varðar jafnréttismat frumvarpa og leggur til að í þeirri endurskoðun sem stendur yfir á reglum um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa verði tryggt að frumvörpum fylgi ávallt gátlisti um jafnréttismál þar sem farið er yfir hvort og þá hvernig frumvarpið hefur áhrif á jafnrétti.

Nefndin tekur undir með fjárlaganefnd sem segir í áliti sínu að of hægt hafi gengið að uppræta kynbundinn launamun. Í tillögunni eru orðin „kynbundinn launamunur“ notuð yfir það sem í reynd er „launamisrétti kynjanna“ sem er það hugtak sem notað er í jafnréttislögum. Nefndin leggur til breytingu til samræmis við orðalag laganna og áréttar að hér er um misrétti að ræða en ekki einungis mun og skýrt þurfi að vera að markmiðið sé að uppræta misréttið og ná fram launajafnrétti.

Í 10. tölulið eru talin upp sjö atriði sem framkvæmdaáætlunin skuli m.a. fela í sér og þar er kveðið á um að efnt verði til samstarfs við samtök aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu Vegvísis um launajafnrétti. Nefndin telur um mjög þarft verkefni að ræða en bendir jafnframt á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV í jafnréttislögum skal ráðherra sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Verkefni þessu átti að ljúka fyrir 1. janúar 2010 og samfara því átti að fara fram endurskoðun á lögunum. Nefndin telur brýnt að verkefninu verði lokið og fyrirtækjum gert kleift að fá jafnréttisvottun.

Nefndin fjallaði þónokkuð um 13. tölulið tillögunnar þar sem lagt er til að gerð verði könnun á töku feðra á fæðingarorlofi. Nokkrir umsagnaraðilar gera athugasemdir við þennan lið tillögunnar og telja könnunina of takmarkaða þar sem hún nái einungis til feðra og áhersla sé lögð á áhrif á verkaskiptingu ungra foreldra á heimilum og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Tekur nefndin undir þetta og telur mikilvægt að könnuð sé taka bæði mæðra og feðra á fæðingarorlofi og áhrif þess óháð aldri foreldra. Þá telur nefndin mikilvægt að jafnframt verði staða mæðra og feðra könnuð eftir að fæðingarorlofstímabili lýkur, en vísbendingar eru m.a. um að konur fari síður og þá seinna út á vinnumarkað eftir það.

Í 17. tölulið tillögunnar er lagt til að gerð verði lögfræðileg úttekt á málum sem kærð hafa verið til kærunefndar jafnréttismála og þróun á túlkun jafnréttislaga hjá nefndinni verði skoðuð. Kærunefnd jafnréttismála fagnar því að til standi að gera slíka úttekt og telur nefndin vert að taka undir með kærunefndinni og áréttar mikilvægi þess að reglur á þessu sviði séu skýrar. Nefndinni var bent á að til að fá heildstæða mynd af málum væri mikilvægt að kanna einnig dóma Hæstaréttar þar sem jafnréttislög hafa verið túlkuð. Könnun nefndarinnar hefur leitt í ljós að ekki er um ýkja marga dóma að ræða, til að mynda féllu tveir dómar í Hæstarétti í jafnréttismálum á tímabilinu 2008–2010. Mikilvægt er þó að fá heildarmynd af réttarþróun og lagatúlkun á þessu sviði. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að með því að útfæra könnunina þannig að hún taki jafnframt til dóma Hæstaréttar gefi hún skarpari mynd af þróun mála og túlkun jafnréttislaga. Telur nefndin að þessi viðbót við verkefnið sé ekki það umfangsmikil að til þurfi viðbótarfjármagn og að hún rúmist því innan fyrirliggjandi kostnaðaráætlunar.

Í D-hluta tillögunnar er gerð grein fyrir verkefnum er varða aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og telur nefndin um mjög mikilvæg verkefni að ræða. Nefndin fagnar þeim verkefnum.

Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að mikilvægt væri að kanna sérstaklega stöðu fatlaðra kvenna. Þessar konur eru almennt taldar í áhættuhópi hvað varðar ofbeldi, meiðsli eða misþyrmingar, hirðuleysi eða vanrækslu, illa meðferð eða misnotkun í gróðaskyni. Endurspeglast þetta m.a. í formálsorðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hafa landssamtökin Þroskahjálp áhyggjur af kynferðislegri misnotkun fatlaðra kvenna og stúlkna og hafa samtökin m.a. staðið ásamt fleirum að fræðslu og útgáfu fræðsluefnis um áhættuþætti. Leggur nefndin því til að nýtt verkefni bætist við tillöguna í samræmi við þetta og telur raunhæft að áætla 1,5 millj. kr. til þess.

Nefndin áréttar jafnframt að hún telur brýnt að skoðuð verði staða fatlaðra stúlkna og pilta með sömu sjónarmið að leiðarljósi. Slík könnun telst þó fremur barnaverndarmál en jafnréttismál og því leggur nefndin ekki til slíkt verkefni, en beinir því til velferðarráðuneytis að vaka sérstaklega yfir stöðu fatlaðra barna og ungmenna og tryggja að réttindagæslu þeirra, sem og alls fatlaðs fólks, sé sinnt með fullnægjandi hætti.

Nefndin fjallaði þó nokkuð um E-hluta tillögunnar um menntir og jafnrétti þar sem gert er ráð fyrir sjö verkefnum. Í tengslum við umfjöllunina ræddi nefndin sérstaklega um fræðasamfélagið og sérfræðinga á sviði kynjafræði og jafnréttis. Telur nefndin mikilvægt að sækja þekkingu til fræðasamfélagsins og að verkefni sem varða jafnrétti verði unnin í samráði við sérfræðinga í kynjafræðum. Leggur nefndin því til breytingar þess efnis á 26. tölulið, um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum, en hún telur jafnframt eðlilegt að samráð sé haft við sveitarfélögin þar sem þau hafa með málefni leik- og grunnskóla að gera. Þá telur nefndin eðlilegt að við úthlutun fjármuna úr Jafnréttissjóði, samanber 9. tölulið tillögunnar, verði skipað fagráð sem leggi faglegt mat á umsóknir og í því sitji m.a. sérfræðingar í kynjafræðum.

Í 27. tölulið tillögunnar er verkefni er lýtur að því að koma áföngum í kynja- og jafnréttisfræðum inn í framhaldsskóla. Nefndin telur um mjög þarft verkefni að ræða sem þar að auki er í samræmi við 23. gr. jafnréttislaga. Í greininni er m.a. kveðið á um kynjasamþættingu í stefnumótun í skólastarfi og að á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál. Í tillögunni er þó ekki að finna sérstakt verkefni er varðar jafnrétti í háskólum heldur einungis í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Telur nefndin mikilvægt að jafnframt verði horft til háskólanna hvað þetta varðar og leggur til að við tillöguna bætist verkefni um jafnrétti í háskólum sambærilegt því sem lagt er til um jafnrétti í framhaldsskólum í 27. tölulið. Nefndin telur raunhæft að verja til verkefnisins 500 þús. kr. sem er sama fjárhæð og kostnaðaráætlun vegna sambærilegs verkefnis í framhaldsskólum hljóðar upp á.

Menntamálanefnd mælist til þess í áliti sínu að verkefni 28. töluliðar, um félagslíf í framhaldsskólum, sé útfært nánar. Félags- og tryggingamálanefnd brást við þeim athugasemdum og gerir breytingar á verkefnum í tölulið 28, 29 og 31 sem gera verkefnin skýrari og markvissari. Rétt er að taka fram að sú breyting var unnin í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Ekki eru verkefni sem tengjast jafnrétti og fjölmiðlum í þessari tillögu þó að full ástæða væri til en ástæðan er skortur á fjármunum. Beinir nefndin því til velferðarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis að huga að því að gerð verði sérstök úttekt eða könnun á fjölmiðlum og jafnrétti. Nefndin telur mikilvægt að fjölmiðlar hafi skýra jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun um það hvernig vinna eigi gegn staðalímyndum kynjanna í fjölmiðlum.

Í G-hluta tillögunnar er að finna fjögur verkefni er varða alþjóðastarf. Nefndin gerir breytingartillögu utanríkismálanefndar við 33. tölulið að sinni en hún er til þess gerð að tryggja eftirfylgni við aðgerðaáætlun frá 8. mars 2008 um framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 1325 og tengdra ályktana um konur, frið og öryggi á alþjóðavettvangi. Íslensk stjórnvöld hafa markað sér stöðu og aflað sér virðingar sem málsvari málaflokksins á alþjóðavettvangi, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og innan Atlantshafsbandalagsins þar sem nýlega voru tekin upp jafnréttismarkmið. Nefndin telur að orðalag þessa liðar jafnréttisáætlunarinnar eigi að endurspegla þennan styrkleika og áherslur íslenskra stjórnvalda með skýrari hætti og leggur til viðeigandi breytingar á orðalagi.

Frú forseti. Hér hafa flutningsmanni orðið á mistök, hér var ég að vitna í orð álits utanríkismálanefndar og félags- og tryggingamálanefnd tekur undir þessi orð og leggur til breytingu á liðnum til samræmis við tillögu utanríkismálanefndar.

Í áætluninni eru lögð til 38 verkefni. Veitt er fjármagn til 23 verkefna en 15 eru talin rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna. Áætlaður heildarkostnaður við tillöguna nemur 168,8 millj. kr. á þeim fjórum árum sem hún er í gildi og munar þar mest um 60 millj. kr. til Lánatryggingasjóðs kvenna í 16. tölulið auk þess sem gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóður jafnréttismála í 2. tölulið og Jafnréttissjóður í 9. tölulið fái 30 millj. kr. hvor. Nefndin leggur til þónokkrar breytingar á þeim verkefnum sem eru í áætluninni en telur þær breytingar þó rúmast innan fyrirliggjandi kostnaðaráætlana. Að auki leggur nefndin til að við áætlunina bætist fimm verkefni. Gert er ráð fyrir að þrjú þeirra rúmist innan fjárheimilda ráðuneyta en tvö þeirra þurfi sérstakt fjármagn og er heildarupphæð þeirrar fjárhæðar sem þar er lögð til 2 millj. kr. Fjárheimildir fylgja ekki þessum verkefnum og leggur nefndin því til að þau hefjist ekki fyrr en á næsta ári enda hefur ekki verið gert ráð fyrir þeim í fjárlögum fyrir árið 2011. Nefndin beinir þeim tilmælum til fjárlaganefndar að verkefnunum verði tryggðar fjárheimildir á fjárlögum áranna 2012–2014.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir þetta álit rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Íris Róbertsdóttir.

Aðrir nefndarmenn voru fjarverandi við afgreiðslu álitsins.