139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[16:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg skýrt að ég deili áhyggjum þingmannsins af skorti á tölfræði. Þetta var líka sérstaklega bagalegt, eins og hann benti á, í umfjöllun félags- og tryggingamálanefndar um skuldamál heimilanna þar sem við ítrekað höfum gengið á þann vegg að hafa ekki nauðsynlegar upplýsingar um stöðu heimilanna. Umfjöllunin um jafnréttisáætlun sýnir líka að hér þarf að gera verulega bragarbót á til að við getum fjallað af skynsemi um þetta.

Ég fagna því að hv. þingmaður kom í andsvari sínu inn á þetta með aðstöðuna í daglegu lífi vegna þess að ég óttast að ég hafi kannski ekki verið nógu skýr í ræðu minni, en ég heyri hins vegar að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um þetta, sem er sem sagt mikilvægi þess að búa svo um hnútana í upphafi áður en við vinnum frekari afrek í jafnréttismálum að það sé yfirleitt hægt að stunda vinnu, að þjóðfélagið sé allt þannig að það séu allir á sömu blaðsíðunni hvað það varðar. Til dæmis að að það sé viðurkennt að fólk sem á börn er í vinnu. Það er bara verulega langt í land hvað það varðar. Fæðingarorlofið er níu mánuðir en svo tekur við tímabil þar sem fólk þarf bara að redda sér. Það er undir hælinn lagt hvers konar dagmóður fólk fær, kannski vinnur hún bara til klukkan tvö. Hvað á fólk þá að gera? Hér er þjóðfélagið náttúrlega komið frekar skammt á veg með það að viðurkenna einfaldlega þá staðreynd að líklega þurfi flestir að vinna og þá þurfi að hafa þessa hluti í lagi. Það sem ég var að benda á í minni ræðu er að ef þessir hlutir eru ekki í lagi virðast þeir bitna ólíkt á kynjunum. Ég held að það þurfi að rannsaka betur.