139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

jöfnun flutningskostnaðar og strandsiglingar.

[10:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U):

Frú forseti. Nú er liðið rúmt ár síðan þessi nefnd skilaði af sér skýrslu. Mörg þeirra fyrirtækja sem starfa á landsbyggðinni eru ekki bara í sjávarútvegi, þar eru framleiðslufyrirtæki, hátæknifyrirtæki og fyrirtæki á mörgum sviðum, auk þess sem það er alveg ljóst að víða úti á landi eru gríðarleg sóknarfæri og vilji til að nýta þau sóknarfæri og því mjög mikilvægt að þessari vinnu verði hraðað. Er hægt að treysta því að á þessu ári eða strax á næsta ári, á næstu mánuðum, verði hafnar strandsiglingar við landið? Hvenær má vænta þess að þessu tilraunaverkefni verði hleypt úr vör? Eru einhverjar dagsetningar komnar í þeim efnum?