139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal að mér þykja þau sérkennileg skilaboð sem koma frá hv. þm. Merði Árnasyni. Hann veit það mætavel að þetta er mikið áhugamál fyrir marga og hann veit það mætavel að oft hafa verið gerðir hérna hlutir sem hafa ekki reynst vel. Það að fara í umræðu um þetta mál er ekki aðeins eðlilegt, það er nauðsynlegt. Menn tala um að við eigum að vanda vinnubrögðin í þinginu en fá síðan að heyra það þegar menn voga sér að ræða um málið að menn séu farnir í málþóf. Þetta er gersamlega út í hött.

Ákveðin atriði komu fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar sem gerðu það að verkum að maður er ekki jafnöruggur með þetta. Ég tel mig muna eftir því að hv. þm. Mörður Árnason hefur rætt um að ekki standi til annað en að þetta verði þjónustugjöld. Hvað varðar leiðsögumannanámskeiðin mundi ég ætla að ef menn hefðu fleiri en 30 væri t.d. hægt að lækka gjaldið. Ég veit ekki hvort það sé kostnaðurinn á bak við 160 þús. kr. leiðsögumannagjaldið, ég þekki það ekki. Ég hvet hv. umhverfisnefnd til að kanna það.

Það væri ágætt að fá nánari útlistun hjá hv. þm. Merði Árnasyni hvernig menn sjá skotprófin, hver verða gjöldin fyrir þau? Ég efast ekki um að hv. þingnefnd hafi farið yfir það, ég held að það væri ágætt sérstaklega í ljósi þess að við höfum oft ekki vandað vinnubrögð nægjanlega vel og höfum setið uppi með einhvern vanda sem við sáum ekki fyrir augljóslega, væntanlega vegna þess að við ræddum málin ekki nógu vel og fórum ekki nógu vel yfir þau. Ég vil því spyrja hv. þingmann nánar út í þá reglugerð sem hann minntist á, m.a. hvað gert er ráð fyrir að skotprófin kosti mikið.