139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vildi að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kenndi mér þá aðferð að lauma hér inn óþægilegum upplýsingum. Mér hefur aldrei tekist það, því miður, og ég held að það sé ekki hægt.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gleymdi að geta þess hversu margar af þessum 88 fyrirspurnum eru komnar fram yfir tímann. Ég heyrði það ekki í ræðunni hans. Það skiptir engu máli hvort það eru 88 eða 880 fyrirspurnir sem ósvarað er ef þær koma á þokkalegum tíma.

Ég vil bera blak af hæstv. fjármálaráðherra. Við vitum öll að sumar af þeim fyrirspurnum sem koma til hans nálgast það að vera skýrslubeiðnir. Það tekur langan tíma að svara þeim. Hitt segi ég alveg óhikað með hv. þingmönnum sem hér komu upp að það er ótækt að svör bíði í sex mánuði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hversu oft hefur hann gengið eftir þessu héðan úr ræðustól? (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið var við það, ég bið hv. þingmann afsökunar ef hann hefur virkilega verið með aðhald og eftirlit gagnvart ráðherrunum því að þá er það ekki góð frammistaða af framkvæmdarvaldinu að hafa ekki svarað. Að öðru leyti segi ég að flestir ráðherrar reyna (Forseti hringir.) að skila á tíma og fæstir reyna að lauma svörunum inn.