139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:01]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég tel að við höfum unnið að því að undanförnu að bæta meðferð EES-mála sem koma inn í þingið. Ég rifja það upp að á árinu 2008, hygg ég að það hafi verið, hafði hv. þáverandi formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarni Benediktsson, frumkvæði að því að vinna tillögur um þinglega meðferð EES-mála. Þeirri vinnu var haldið áfram undir minni formennsku í utanríkismálanefnd og þær hafa nú tekið gildi með samþykkt forsætisnefndar. Tilgangurinn er sem sagt að reyna að tryggja að EES-mál sem eru í farvatni komi á fyrri stigum til kynningar á vettvangi Alþingis en áður hefur verið. Við erum samt enn með allmargar ályktanir í farvatninu, ákvarðanir EES-nefndanna, sem ekki hafa farið í gegnum þennan nýja farveg. Nú hefur þessu hins vegar verið breytt þannig að héðan í frá eigum við að fá á fyrri stigum samþykktir sameiginlegu EES-nefndarinnar eða önnur þau mál sem kunna að vera í farvatninu og þar sem líkur eru á að þurfi að setja stjórnskipulegan fyrirvara til umfjöllunar á vettvangi Alþingis.

Varðandi pósttilskipunina sem hv. þingmaður nefndi er hún í sjálfu sér ekki til umfjöllunar hér en ég minni hins vegar á að í 102. gr. EES-samningsins er aðildarríkjum EES, þar með talið EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES-samningnum, heimilt að gera fyrirvara eða fallast ekki á innleiðingu tiltekinna tilskipana. Sá réttur er að sjálfsögðu til staðar. Hvaða afleiðingar það mun síðan hafa er annað mál. Ég hef fylgst með þessari umræðu í Noregi. Ég hef tilhneigingu til að vera efnislega sammála norskum stjórnvöldum hvað þetta mál snertir en áskil mér þó rétt til að fara betur yfir það þegar það kemur hér til umfjöllunar. Ég hef líka tekið eftir því að norsk stjórnvöld hafa sagt að þau muni að sjálfsögðu taka málið til frekari skoðunar ef það hefur einhverjar slíkar afleiðingar að það kunni að setja EES-samninginn í uppnám. Þá verður það væntanlega tekið aftur. Afstaða norsku ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt ESB að því er ég best veit, það var sennilega gert í byrjun þessarar viku.