139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég var sjávarútvegsráðherra og síðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tíma en sérstaða þess ráðuneytis er meðal annars í því fólgin að sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eru utan EES-samningins. Engu að síður koma mjög mörg mál upp á vettvangi EES-samningsins sem snerta með óbeinum hætti ýmislegt í sambandi við þetta og hafa áhrif á þessar atvinnugreinar.

Ég þekki mýmörg dæmi um það að embættismenn sem hafa verið starfandi, bæði þeir sem eru starfandi erlendis og einnig þeir sem eru starfandi í ýmsum sérfræðistofnunum, hafa látið sig varða mál sem hafa snúið að íslenskum hagsmunum og hafa haft áhrif á ýmislegt sem þar er að gerast. Þess vegna ætla ég að fullyrða að þarna höfum við ýmis tækifæri. Sum þeirra höfum við verið að nýta okkur ágætlega. Önnur höfum við ekki verið að nýta okkur eins og við hefðum haft tækifæri til, sumpart vegna þess að hin pólitísku samskipti, sem ég hef verið að tala hér um, gætu verið meiri. Þar er ekki við neinn annan að sakast en þingmenn sjálfa. Við getum ekki horft til framkvæmdarvaldsins og við getum ekki horft til embættismannavaldsins í þeim efnum. Við verðum einfaldlega að líta í eigin barm og spyrja okkur sjálf að því hvort það sé ekki eitthvað þarna sem við getum aukið.

Málin berast framkvæmdarvaldinu með ýmsum hætti. Ég held að það sé til fyrirmyndar, eins og hefur verið gert. Tilskipanirnar sjálfar koma, eins og við þekkjum, inn í þingið og síðan til utanríkisnefndar og í framhaldinu er lagt fram lagafrumvarp ef tilefni er til. En í mínum huga verða nokkrar spurningar æ áleitnari. Getur verið að við séum á einhvern hátt farin að verða of undanlátssöm gagnvart þessum tilskipunum? Ég sé að flóð þessara tilskipana er stöðugt að aukast og það er einhver ástæða fyrir því. Mér er ekki kunnugt um að það sé eitthvað í eðli Evrópusambandsins sem veldur því. Ég spyr þá bara sjálfan mig: Er það einhver meðvituð pólitísk stefnumótun, eða ómeðvituð, sem veldur því að stöðugt fleiri tilskipanir Evrópusambandsins rata inn á borð okkar þingmanna?